Loks er útlit fyrir að uppbygging skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli geti hafist af fullum krafti eftir að aðgerða- og framkvæmdaáætlun vegna mótvægisaðgerða til að tryggja vatnsvernd á svæðinu lá fyrir fyrir jól.
„Við erum búin að halda það síðastliðin tvö ár að eitthvað sé að fara að gerast en ég held að hindranirnar séu flestar farnar, kærurnar voru síðasta stoppið,“ segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í færslu á Facebook-síðu sinni í gær að uppbygging á fyrstu framkvæmdum geti fljótlega farið af stað þar sem kærur vegna umhverfismála hafa verið dregnar til baka í kjölfar ítarlega útfærðrar aðgerða- og framkvæmdaáætlunar sem samþykkt var fyrir jól.
Í nóvember var greint frá því að áform um uppbygginguna væru í uppnámi vegna þess að Veitur kærðu þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að framkvæmdirnar þyrftu ekki að fara í umhverfismat.
Mótvægisaðgerðirnar fela í sér endurbætingu á veginum að Bláfjöllum með tilliti til vatnsverndar og þá verður vöktun á svæðinu efld með nýjum vöktunarholum. „Eftir samtöl milli framkvæmdaaðila okkar og Vegagerðarinnar er búið að koma til móts við þær athugasemdir og ábendingar sem við vorum með,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, talsmaður Veitna, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.
Ef allt gengur samkvæmt áætlun og öll leyfi verða samþykkt geta fyrstu áfangar verksins, bygging tveggja nýrra stólalyftna, verið boðnir út í febrúar og framkvæmdir hafist í sumar, að sögn Magnúsar.
„Það er birgjans sjálfs að meta hvort við séum orðin of sein fyrir sumarið eða ekki en við munum stilla útboðinu þannig upp að það verði hafist handa í sumar. En ef enginn svarar eða er tilbúinn í það verður að fresta verkinu um eitt ár.“
Nær engin uppbygging hefur verið á svæðinu síðan stólalyftan Kóngurinn var tekin í notkun árið 2005. „Síðan þá hefur eiginlega ekkert gerst nema eitt töfrateppi sem við keyptum árið 2012 en á sama tíma eru einhverjar lyftur orðnar úreltar og úr sér gengnar,“ segir Magnús.
Hann segir uppbygginguna sem fram undan er hafa gífurlega mikla þýðingu fyrir alla skíða- og snjóbrettaiðkendur á landinu. „Þrátt fyrir þetta hefur verið aukning á milli ára og mesta aukningin frá 2012, þá varð veruleg nýliðun. En þetta mun valda því að það verður miklu betri dreifing um fjallið og fjölbreyttari kostir í boði fyrir fólk. Það mun ekki líta á svæðið sem lokað þó svo að ein stólalyfta bili, eins og raunin er í dag.“
Ný framkvæmdaáætlun felur í sér að ráðist verður í snjóframleiðslu í Bláfjöllum á þessu ári og í Skálafelli árið 2022. Á þessi ári verður einnig fjárfest í nýrri lyftu í Bláfjöllum (Gosa) og 2022 nýrri Drottningu. Í báðum tilvikum verður um breytta legu þeirra að ræða. Þá bætist við stólalyfta í Eldborgargil við lok framkvæmdatímans ásamt nýrri toglyftu úr Kerlingardal. Stólalyfta í Skálafelli verður endurnýjuð 2021. Alls hljóðar fjárfestinga- og framkvæmdaáætlunin upp á rúma fjóra milljarða sem dreifast á árin 2020-2025, að því er fram kemur í færslu borgarstjóra.
Magnús segir að snjóframleiðslunni sé fyrst og fremst ætlað að tryggja skíðatímabilið. „Við munum byrja snemma og minnka hlákutíð.“
Í útboðinu í febrúar er gert ráð fyrir tveimur nýjum stólalyftum og tveimur áföngum, af þremur, í snjóframleiðslu. „Það er jöfn áhersla á skíðalyftur og snjóframleiðslu,“ segir Magnús, sem er bjartsýnn á að framkvæmdir geti hafist í sumar.
„Við erum búin að vera í startholunum lengi og birgjarnir úti vita af því og ég veit að þeir eru búnir að ræða við innlenda byggingaverktaka til að undirbúa sig og ég er bjartsýnn að við séum með valkosti um aðila sem eru tilbúnir að byrja í sumar.“