Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, hefur óskað eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis taki mál sem varða MAX-flugvélar flugvélaframleiðandans Boeing til umfjöllunar. Hún vill fá forsvarsmenn Samgöngustofu, Isavia og Icelandair á fund nefndarinnar.
Þetta kemur fram í stöðufærslu Hönnu á Facebook-síðu hennar þar sem hún vísar til þess að fjölmiðlar víða um heim hafi opinberað samskipti milli háttsettra starfsmanna Boeing þar sem virðist koma í ljós að þeir hafi ekki komið hreint fram í samskiptum við flugmálayfirvöld og einstaka flugfélög.
„Það sem hefur verið að gerast síðustu daga og vikur er að fjölmiðlar víða um heim hafa verið að fjalla um upplýsingar sem hafa verið að birtast, t.d. innanhússamskipti starfsmanna Boeing, þar sem háttsettir starfsmenn hafa verið að tala niður bæði vélarnar og þá vinnu sem hefur átt sér stað frá því að þær voru kyrrsettar í mars á síðasta ári,“ segir Hanna í samtali við mbl.is.
Þá bætir hún við að sagðar hafi verið fréttir af því að mörg flugfélög ætli að setja auknar kröfur áður en MAX-vélarnar verða teknar í notkun.
„Það sem vakir fyrir mér með því að biðja um þennan fund er að fá upplýsingar um það hvað Samgöngustofa og Isavia eru að skoða í þessu sambandi. Það er sagt beinlínis berum orðum [í erlendum fjölmiðlum] að yfirmenn Boeing hafi ekki verið alveg heiðarlegir í samskiptum m.a. við flugfélög. Ef það er þannig þá veltir maður því fyrir sér hvaða upplýsingar, flugfélög sem eiga þessar vélar, eru að nýta sér.“
Hanna Katrín segist vona að beiðni hennar um fundinn verði samþykkt og á ekki von á öðru. Hún býst hún við því að það komist á hreint í fyrramálið þegar þingmenn koma úr helgarfríi.