Bernie Sanders, sem sækist eftir því að verða frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum á næsta ári, tekur Ísland sem dæmi í færslu á Twitter þar sem hann tekur saman tölfræði um lögregluofbeldi árið 2018.
Samkvæmt tölfræðinni sem Sanders vísar í skutu lögreglumenn í Bandaríkjunum 992 manns til bana árið 2018. Hann tekur svo dæmi um fimm önnur ríki, þar á meðal Ísland, þar sem enginn féll fyrir hendi lögreglu það ár.
Fatal shootings by police in 2018:
— Bernie Sanders (@SenSanders) January 13, 2020
🇮🇸-0
🇫🇮-3
🇸🇪-6
🇫🇷-26
🇨🇦-36
🇺🇸-992
Imagine: Walter Scott—and so many others—would be alive today if we had the major criminal justice reform we need in this country.
Íslenska lögreglan hefur í raun einu sinni gripið til þess neyðarráðs að beita skotvopnum sínum á vettvangi. Það var í Árbænum í lok árs 2013 þegar karlmaður hleypti af fjöldamörgum skotum á lögreglu- og sérsveitarmenn.
„Ímyndið ykkur: Walter Scott — og svo margir fleiri — gætu verið á lífi í dag ef réttarkerfið hefði gengið í gegnum þær endurbætur sem þörf er á,“ segir Sanders.
Walter Scott var 50 ára gamall og fjögurra barna faðir. Hann var svartur, skotinn átta sinnum í bakið af stuttu færi af hvítum lögreglumanni. Heimsbyggðin sá hann skotinn til bana á myndbandi og vakti dauðsfallið mikla athygli vestanhafs og kom af stað mikilli mótmælaöldu um lögregluofbeldi í Bandaríkjunum.