„Það að hún leyfi sér að hóta starfsfólkinu með þessum hætti veldur mér gríðarlegum vonbrigðum og ég óttast það að ríkisstjórnin ætli sér ekki að bregðast við því neyðarástandi sem er þarna,“ segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hún gagnrýnir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra harðlega fyrir að gagnrýna lækna fyrir að tala Landspítalann niður.
Svandís lét ummælin falla á lokuðum fundi með læknaráði í gær samkvæmt frétt Stundarinnar. Helga segir það alvarlegt mál að hennar mati að Svandís hafi sagt það áskorun að standa með Landspítalanum þegar starfsfólk og aðrir lýstu raunveruleikanum innan hans.
„Mér finnst mjög alvarlegt að heilbrigðisráðherra með þessum orðum sínum láti eins og þjóðarsjúkrahúsið sé eitthvert gæluverkefni lækna? Ástandinu hefur verið lýst sem hættuástandi og starfsfólkið sinnir störfum sínum langt umfram bestu getu að mínu mati,“ segir Helga og hefur eftir ónefndum starfsmanni Landspítalans að hann væri „bara einu rútuslysi frá algjörri katastrófu“.
„Ég trúi þeim, enda hef ég orðið vitni að þessu af eigin raun.“