Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun beiðni Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um að undirskriftasöfnun fari fram á grundvelli 3. málsgreinar 108. greinar sveitarstjórnarlaga vegna atkvæðagreiðslu um Stekkjarbakka Þ73.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Hins vegar segir í tilkynningunni að samþykktin sé með þeim fyrirvara að undirskriftasöfnunin og íbúakosningin fjalli ekki um lögformlegt gildi deiliskipulagsins fyrir Stekkjarbakka Þ73 þar sem slíkt standist ekki lög þar sem íbúakosning geti ekki fellt deiliskipulag úr gildi.
„Deiliskipulagið hefur þegar öðlast lögformlegt gildi og verður aðeins breytt með endurskoðun á því í samræmi við málsmeðferðarferla í skipulagslögum og að viðlagðri bótaábyrgð Reykjavíkurborgar. Atkvæðagreiðsla gæti hins vegar snúist um það að Reykjavíkurborg myndi hefja endurskoðun á deiliskipulagi, að virtum þessum málsmeðferðarreglum og hugsanlegri bótaábyrgð.“