Þau sem andrúmsloftið erfa

Selja Sif Nabilsdottir Lamouri horfir út um glugga á heimili …
Selja Sif Nabilsdottir Lamouri horfir út um glugga á heimili sínu í Champigny-sur-Marne, út í andrúmsloftið sem hefur tekið svo ískyggilegum stakkaskiptum frá upphafi iðnbyltingar að löngu tímabært er að grípa til aðgerða sem virka. Selja Sif var valin í hóp 150 franskra borgara sem nota veturinn í að finna leiðir til úrbóta. Ljósmynd/Hrafnhildur Jónsdóttir

„Ég hélt fyrst að þetta væri símasölumaður,“ segir Selja Sif Nabilsdottir Lamouri, 16 ára íslensk-frönsk stúlka í Champigny-sur-Marne, rétt utan við París í Frakklandi, þegar hún segir frá símtali sem henni barst 6. september í fyrra.

Ekki reyndust þó sölumenn á bak við símtalið heldur var þar fulltrúi franska ríkisins að bjóða Selju Sif að taka sæti í hópi 150 franskra borgara sem ætlað er að leggja höfuðið í bleyti á sex þriggja daga helgarsamkomum og skila að lokum af sér raunhæfum tillögum í loftslagsmálum sem miða að því að ná því markmiði franskra yfirvalda að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030, miðað við losunarstöðuna árið 1990.

Hverjum og einum er þátttaka í hugveitu þessari auðvitað í sjálfsvald sett en hópurinn var valinn þannig að hringt var í úrtak 255.000 einstaklinga sem valdir voru eftir ákveðnum reglum, konur skyldu skipa 51 prósent hópsins, karlmenn 49, aldurshópar voru sex auk þess sem skipt var í menntunar- og starfsgreinaflokka.

Þurfti að spyrja foreldrana

„Mér leist vel á þetta,“ segir Selja Sif sem hefur síðustu tvö ár látið sig umhverfis- og dýravernd miklu varða og ákvað því að slá til og þiggja sæti í vinnuhópnum. „Konan spurði mig hvað ég væri gömul og þegar ég sagðist vera 16 ára sagði hún að ég þyrfti að spyrja foreldra mína,“ rifjar hún upp.

Foreldrar Selju Sifjar eru Hrafnhildur Jónsdóttir, skólastjóri Hótelstjórnendaskóla École-Ferrières í Ferrières-en-Brie, skammt austur af París, jafnan kölluð Krumma, enda Frökkum líklega margt þjálla en að bera nafnið Hrafnhildur fram, og Frakkinn Nabil Lamouri, tæknistjóri í útsendingardeild franska ríkisútvarpsins.

Hópurinn sem valinn var í fyrrasumar og -haust eftir að …
Hópurinn sem valinn var í fyrrasumar og -haust eftir að hringt hafði verið í 255.000 manns í Frakklandi, úrtak sem valið var eftir nákvæmum reglum um kynjaskiptingu, aldursdreifingu og sem breiðastan grundvöll menntunar og starfsgreina. Ljósmynd/ Convention Citoyenne pour le Climat

Krumma segir leyfi foreldranna hafa verið auðsótt mál þegar ljóst varð að hvorki var sölumennska né einhvers konar svikastarfsemi á bak við símtalið óvænta. „Það var hringt í hana á föstudagskvöldi, 6. september, um klukkan átta,“ segir hún frá. „Ég var í vinnunni og hún hringdi í mig mjög æst og hamingjusöm. Ég dró nú aðeins úr þessu og sagði henni að þetta væri örugglega svindl og hún skyldi ekki gera sér of miklar vonir, þeir veldu örugglega ekki ólögráða unglinga í verkefnið, hringdu ekki á föstudagskvöldi og svo framvegis,“ segir Krumma sem á sínum tíma lagði sig fram í hlutverki skynsama foreldrisins.

Annað símtal hafi svo fylgt daginn eftir og þá orðið ljóst hvers kyns var, Selju Sif bauðst að taka sæti í loftslagsrýnihópnum, yngst fulltrúa ásamt dreng sem einnig er 16 ára, en næst fyrir ofan þau í aldri eru fimm 17 ára unglingar.

Unnið í helgarlotum

Starf hópsins fer svo þannig fram að haldnar eru sex helgarlotur, reyndar sjö þar sem einni var nýlega bætt við vegna umfangs verkefnisins, og fer stór hluti þessara samverustunda í að hlýða á fyrirlestra sérfræðinga á sviði umhverfismála.

Heildarhópnum var í upphafi skipt niður í vinnuhópa eftir hinum fimm meginsviðum sem vinnan deilist niður á og eru fæða og landbúnaður – húsnæðismál – atvinna og iðnaður – samgöngur og að lokum neysla og lífsstíll. Varð fyrsti hópurinn, fæða og landbúnaður, vettvangur Selju Sifjar.

„Við byrjum klukkan tvö á föstudögum og erum til um það bil sjö, átta um kvöldið,“ segir Selja Sif, sem nú hefur nýlokið fjórðu lotunni sem var um síðustu helgi en vinnuloturnar fara fram í París. „Við gistum svo þarna alla helgina, við unglingarnir erum út af fyrir okkur á hosteli og erum með barnapíu,“ segir hún og hlær við, enda má vel brosa að því að fulltrúar í hugveitu franskra stjórnvalda í loftslagsmálum séu undir eftirliti barnapíu á næturnar.

Starf loftslagshugveitunnar er skipulagt þannig að hópurinn hittist yfir sjö …
Starf loftslagshugveitunnar er skipulagt þannig að hópurinn hittist yfir sjö þriggja daga vinnuhelgar, upphaflega sex en einni var bætt við, yfir veturinn og skilar að lokum endanlegum tillögum í byrjun apríl. Almenningi er þó í lófa lagið að fylgjast með starfinu á heimasíðu verkefnisins og leggja þar fram spurningar og athugasemdir. Ljósmynd/ Convention Citoyenne pour le Climat

Hún segir vinnuna svo hefjast á ný klukkan níu á laugardagsmorgnum og standa fram til sjö eða átta að kvöldi og að lokum sé sunnudagslotan frá klukkan níu til fjögur. Fulltrúarnir fá greiddar 86 evrur, tæpar 12.000 íslenskar krónur, fyrir hvern dag auk þess sem allur ferðakostnaður er greiddur og vinnutap þeirra sem eru þátttakendur á vinnumarkaði. Allar vinnuloturnar fara fram í Jena-höllinni í París, Palais d'Iéna, og mislanga vegu að fara fyrir fulltrúana sem eru búsettir um gervallt Frakkland.

Fulltrúar hugveitunnar eru í miklu sambandi innbyrðis utan vinnuhelganna og halda að sögn Selju Sifjar stífa rökræðufundi gegnum myndfundaforritið Skype enda tíminn takmörkuð auðlind, þeim er ætlað að leggja tillögur sínar fyrir frönsk stjórnvöld í byrjun apríl.

Baráttan gegn vistmorði

Næsta lota, í febrúar, verður þó ákveðin þungamiðja að sögn Selju Sifjar. Þá mun hópurinn bera tillögur sínar í umhverfismálum undir hóp sérfræðinga auk þess sem viðstaddur verður fulltrúi stjórnvalda sem hefst handa við þá vinnu að útbúa lagafrumvarp sem byggir á tillögunum, því ætlunin er að lögfesta aðgerðaáætlunina þegar hún liggur fyrir.

Hundrað og fimmtíumenningarnir sitja þó hvergi nærri innsiglaðir í fílabeinsturni mengunar- og umhverfisfræða því verkefnið heldur úti eigin heimasíðu þar sem almenningi gefst færi á að kynna sér starfið auk þess að leggja fram spurningar og athugasemdir.

Af öllum þeim fræðimönnum sem lagt hafa gjörva hönd á plóg við að upplýsa vinnuhópinn um stöðu mála þykir Selju Sif einna mest til franska alþjóðalögfræðingsins og aðgerðasinnans Valérie Cabanes koma og þrotlausrar baráttu hennar gegn vistmorði (e. ecocide) í heiminum, en Cabanes hefur barist ötullega fyrir því að Alþjóðaglæpadómstóllinn (International Criminal Court, ICC) viðurkenni vistmorð sem raunverulegt og refsivert afbrot.

Ljáir verkefninu trúverðugleika

Ekki eru það þó fræðimenn einir sem tekið hafa hús á loftslagsrýnihópnum. Édouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, ávarpaði hópinn á fyrstu helgarsamkomunni og hvatti til dáða auk þess sem Élisabeth Borne umhverfisráðherra leit í heimsókn, en í nýafstaðinni helgarlotu birtist Emmanuel Macron Frakklandsforseti, ávarpaði hópinn og svaraði spurningum. Stundum í alllöngu máli að mati Selju Sifjar.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti heimsótti hópinn á föstudaginn fyrir rúmri viku, …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti heimsótti hópinn á föstudaginn fyrir rúmri viku, flutti ávarp og svaraði spurningum loftslagsrýnanna. Selja Sif krýpur á kné fyrir miðri mynd við hlið forsetans. Ljósmynd/ Convention Citoyenne pour le Climat

„Macron talar dálítið mikið,“ segir hún í léttum dúr og brosið heyrist nánast gegnum símann. „Hann var alveg að drekkja okkur þegar hann var að svara sumum spurningunum,“ segir hún og hlær. „Hann er mjög flinkur ræðumaður en auðvitað fundum við alveg að hann er fyrst og fremst stjórnmálamaður,“ segir hún og bætir því við að töluvert af málflutningi forsetans hafi kannski ekki haft svo mikið með málefni umhverfis- og kolefnislosunar að gera. „En það er sama, mér finnst að hann gefi verkefninu okkar trúverðugleika með því að koma í heimsókn og sýna því áhuga,“ segir Selja Sif ánægð.

Áttar sig betur með hverjum deginum

Fram undan eru þrjá vinnuhelgar, í febrúar, mars og apríl. Í lokalotunni, fyrstu helgi aprílmánaðar, er vinnuhópnum uppálagt að kynna starf sitt og skila af sér lokaniðurstöðum. Hvernig leggst þetta í 16 ára gamlan fulltrúa frönsku þjóðarinnar í loftslagsmálum og, ekki síður, hefur starfið hingað til rímað við það sem hún bjóst við að biði hennar í vetur?

„Ég er búin að læra alveg heilmikið og ég átta mig betur á mikilvægi þessarar vinnu með hverjum deginum,“ segir Selja Sif. Hún segir alla ættu að líta á loftslagsmálin sem áhyggjuefni. „Við í fæðuhópnum erum langt komin með okkar tillögur sem eru 14. Ef allt fer eftir áætlun í næstu lotu koma sérfræðingar að hjálpa okkur að skrifa upp lögin. Hver hópur verður að bera sínar tillögur undir alla [heildarhópinn, 150 manns] og við ákveðum svo saman hvað verður eftir,“ útskýrir Selja Sif.

Íslensk-frönsk fjölskylda stödd í Grímsnesi í fríi á Íslandi. F.v.: …
Íslensk-frönsk fjölskylda stödd í Grímsnesi í fríi á Íslandi. F.v.: Nabil Lamouri, Mishaal Helgi, 11 ára, Hrafnhildur „Krumma“ Jónsdóttir, Linah Hind, níu ára, og Selja Sif Nabilsdottir Lamouri. Ljósmynd/Aðsend

Hún segist gera sér ljóst að auðvitað muni ekki allar tillögurnar ná fram að ganga en vonar af heilum hug að þær mikilvægustu að mati hópsins nái í gegn og hafi áhrif á loftslagsmál í Frakklandi. „Ég óska þess líka að við séum fyrirmynd fyrir Evrópu og jafnvel heiminn,“ segir hún vongóð.

Selja Sif segist ekki hafa haft hugmynd um við hverju hún átti að búast við upphaf starfsins á haustdögum, jafnvel hafi það hvarflað að henni að loftslagshópurinn væri lítið annað en sýndarmennska franskra stjórnmálamanna. „Ég efast kannski enn þá dálítið um útkomuna en ég vona það besta, árangurinn hefur aukist á hverjum fundi og við nálgumst markið,“ segir Selja Sif Nabilsdottir Lamouri að lokum, fulltrúi í loftslagshugveitu franskra stjórnvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert