„Það er dapurlegur málflutningur að saka aðra um lygar vegna þess að menn eru ekki sáttir við að heyra fréttir um aukinn jöfnuð á árinu 2018. Svona málflutningur rýrir traust á stjórnmálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á facebooksíðu sinni.
Þar bregst hún við frétt RÚV þar sem greint er frá því að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði á þingfundi í dag að framsetning hennar í umræðu um ráðstöfunartekjur Íslendinga hefði verið blekkjandi og hún hefði logið með tölfræðinni sem hún vitnaði í.
„Björn Leví Gunnarsson sagði mig ljúga í þingsal þegar ég sagði í ræðu á mánudag að samkvæmt upplýsingum úr Tekjusögunni, gagnagrunni sem stjórnvöld hafa sett upp og birt og inniheldur upplýsingar um ráðstöfunartekjur Íslendinga frá 1991 til 2018, að ráðstöfunartekjur að teknu tilliti til fjármagnstekna jukust hlutfallslega mest hjá neðstu tekjutíundinni og minnkuðu hjá efstu tekjutíundinni á árinu 2018,“ segir Katrín.
Bendir hún á að hún hafi rætt um þetta að teknu tilliti til fjármagnstekna og því sé Björn Leví á villigötum með því að saka hann um lygar og að hafa ekki sett málið í samhengi við þróun ráðstöfunartekna frá tíunda áratug síðustu aldar.