Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, afþakkaði sem þingmaður allar utanlandsferðir og fór aldrei til útlanda sem slíkur.
Þessu greinir Frosti frá á facebooksíðu sinni í dag en tilefnið er svar Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn frá Þorsteini Víglundssyni, þingmanni Viðreisnar, um kostnað vegna utanlandsferða þingmanna og forseta Alþingis sem birt var á mánudaginn en þar kemur meðal annars fram að á síðasta ári hafi þessi kostnaður numið rúmum 60 milljónum króna og árið þar á undan rúmum 43 milljónum.
„Sem þingmaður afþakkaði ég allar utanlandsferðir og fór aldrei til útlanda. Hef reyndar skilning á því að þeir þingmenn sem taka þátt í alþjóðlegum nefndum þurfi að hitta sína kollega en það mætti í þeim tilfellum spara mikinn tíma og kostnað með því að nýta fjarfundatækni. Það var ekki gert svo ég vissi til,“ segir Frosti sem sat á Alþingi 2013-2016. Hann bætir síðan við:
„Þeir þingmenn sem fóru utan á kostnað Alþingis eignuðust við það vildarpunkta hjá t.d. Icelandair sem þeir gátu síðar nýtt í eigin þágu. Það er óheppilegur hvati til aukinna ferða og væri betra ef ferðapunktarnir rynnu til lækkunar á ferðakostnaði þingsins.“