Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, efast um hæfi allra ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Þetta sagði Sigmundur Davíð í Kastljósþætti kvöldsins þar sem hann ræddi stjórnmálin við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur þáttarstjórnanda í tilefni loka fyrstu þingfundaviku ársins.
Meðal þess sem var til umræðu í þættinum var hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ljósi stöðu hans gagnvart Samherja. Spurður hvort hann drægi hæfi Kristjáns Þórs í efa í Samherjamálinu sagði Sigmundur:
„Ég dreg hæfi hans í efa og allra ráðherra ríkisstjórnarinnar, í öllum málum,“ svaraði Sigmundur Davíð en dró svo örlítið úr. „Eða, ekki öllum alveg, en flestum. Í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum tel ég að það væri betra að hafa annan ráðherra, og það sama á reyndar við um aðra málaflokka líka.“
Inntur sérstaklega eftir afstöðu sinni gagnvart hæfi Kristjáns Þórs í Samherjamálum sagði Sigmundur Davíð aðalatriðið vera hvaða ákvarðanir ráðherrar tækju.
„Ef ráðherrar þekkja til í ákveðnum málaflokki þá þekkja þeir einhverja sem tengjast þeim málaflokkum. Aðalatriðið þar er að mínu mati hvernig þeir halda á þeim málaflokkum og hvaða ákvarðanir þeir taka. Mér finnst þessi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki hafa verið að taka í öllum tilvikum réttar ákvarðanir og kannski enn frekar í landbúnaðarmálunum heldur en í sjávarútvegsmálunum þótt það sama megi segja um aðra ráðherra líka.“