„Nokkuð persónulegt“ hjá Reyni og Vilhjálmi

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Reynir Traustason.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Reynir Traustason. mbl.is/Samsett mynd

Andrúmsloftið var spennuþrungið þegar Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Arnþrúðar Karlsdóttur, fór yfir meiðyrðamál Reynis Traustasonar gegn henni í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Dómari þurfti að grípa inn í á tímabili og sagði að málið væri orðið nokkuð persónulegt.

Reyn­ir, fyrr­ver­andi rit­stjóri DV og stjórn­ar­maður Stund­ar­inn­ar, sak­ar Arnþrúði út­varps­stjóra Útvarps Sögu um ærumeiðandi um­mæli sem lát­in voru falla í þætti á Útvarpi Sögu 5. des­em­ber 2018.

Reynir krefst þess að þrenn ummæli verði dæmd dauð og ómerk og að honum verði dæmdar 1,5 milljónir króna í miskabætur.

Reynir Traustason og Arnþrúður Karlsdóttir.
Reynir Traustason og Arnþrúður Karlsdóttir. mbl.is/Samsett mynd

Reynir hafði áður sagt að hann væri hættur störfum í blaðamennsku eftir 30 ára feril, meðal annars hjá DV og Stundinni. Vilhjálmur benti á að þrátt fyrir að Reynir segðist hafa slitið sig frá Stundinni ætti hann enn 14% hlut þar og deildi fréttum þaðan á Facebook-síðu sinni.

Reynir kvaðst kannast við það að hann deildi nú stundum samtölum þaðan og einhverjum skemmtilegheitum. Stundum deildi hann þyngra efni og það væri aðeins gert til að varpa ljósi á einhverja umfjöllun.

„Ertu að tala um málið sem þú tapaðir um daginn?“ spurði Reynir Vilhjálm.

Vilhjálmur rifjaði upp grein þar sem Reynir var kallaður mannorðsmorðingi. Reynir var fljótur að benda á að í því máli, sem snerist um umfjöllun DV um Sigurplastsmálið svokallaða, hefðu honum, Jóni Trausta Reynissyni og Inga Frey Vilhjálmssyni, bróður Vilhjálms lögmanns, verið dæmdar margar milljónir í bætur.

Spurður sagðist Reynir ekki vera viss hvort hann hafi íhugað málaferli þegar hann var kallaður mannorðsmorðingi. „Kannski hugsaði maður það. Líka þegar þú kallaðir mig síbrotamann á sviði ærumeiðinga. Þá hugsaði ég með mér að þetta væri Villi, hann sé bara reiður út af ritgerðinni,“ sagði Reynir.

Við aðalmeðferðina í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Við aðalmeðferðina í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur og Reynir héldu áfram að karpa þangað til dómari greip inn í og sagði spurningar og svör þeirra orðin nokkuð persónuleg.

Vilhjálmur sagði að Reynir hefði víst verið dæmdur fyrir ærumeiðingar. Þegar hann var ritstjóri DV voru þrenn ummæli í frétt dæmd dauð og ómerk. „Þú hefur þá verið dæmdur fyrir ærumeiðingar,“ sagði Vilhjálmur.

„Það skiptir bara engu máli í samhenginu. Kostaði þetta mannslíf eða var um að ræða falskar fréttir?“ spurði Reynir.

„Það er ég sem spyr spurninganna Reynir,“ sagði Vilhjálmur.

Vilhjálmur sagði að vegna þess að Reynir hefði með hvössum hætti fjallað um menn og málefni þá væri rýmkað tjáningarfrelsi gagnvart honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert