Samkvæmt bráðabirgðaútreikningum hefur losun koldíoxíð (CO2) ígilda frá flugsamgöngum dregist saman um 44% á milli áranna 2018 og 2019. Samdráttinn má rekja til fækkunar flugfélaga í millilandaflugi, en tvö íslensk flugfélög hættu rekstri í lok árs 2018 og upphafi árs 2019. Losun í flugrekstri jókst hins vegar um 5% á milli áranna 2017 og 2018. Losun hér tekur eingöngu tillit til reksturs íslenskra félaga en ekki losunar vegna flugferða erlendra flugfélaga sem hafa viðkomu á Íslandi, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Losun frá sjóflutningum eykst töluvert árið 2018 en er svipuð milli áranna 2018 og 2019. Heildarlosun frá stóriðju breytist lítið á árunum 2017-2019, en hins vegar er nokkur mismunur í losun eftir atvinnugreinum sem teljast til stóriðju.
Losun frá málmframleiðslu lækkaði um tæp 110 kílótonn CO2 ígilda á milli 2018 og 2019, en þessa lækkun má rekja til minni framleiðslu og bilana í verksmiðjum. Losun CO2 ígilda frá kísilverum jókst hins vegar um nær sama magn á sama tíma.
Tölur um losun fyrir árin 2018 og 2019 eru bráðabirgðatölur og gefa vísbendingu um þróun losunar frá hagkerfi Íslands. Tölurnar verða endurskoðaðar þegar nákvæmari gögn liggja fyrir, eða þegar og ef aðferðafræði verður endurskoðuð, segir enn fremur í frétt Hagstofu Íslands.