Höskuldur Daði Magnússon Guðni Einarsson
„Þetta er stór hópur fólks sem vinnur mjög hörðum höndum að því að finna lausn,“ segir Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri hjá Ríkissáttasemjara.
Stíf fundahöld hafa verið síðustu tvo daga í svokölluðum vaktavinnuhópi hjá Ríkissáttasemjara. Undanfarið hefur verið leitað leiða til að ná samkomulagi um fyrirkomulag og starfskjör vaktavinnufólks í starfshópi fulltrúa BSRB, BHM, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og Eflingar með viðsemjendum hjá ríki, borg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Sem kunnugt er hefur stytting vinnuvikunnar verið skýr krafa hjá BHM og BSRB auk fleiri félaga en erfitt hefur reynst að finna úrlausn hjá vaktavinnufólki. Fundað verður alla helgina að sögn Elísabetar.
„Það standa öll spjót á þessum hópi svo hægt sé að ljúka öllum málum, bæði þeim sem eru á okkar borði og ekki á okkar borði,“ segir hún í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.