Engir svikarar við lífskjarasamninginn

„Fólk er svo ótrúlega ósátt vegna þess að fólk veit …
„Fólk er svo ótrúlega ósátt vegna þess að fólk veit sjálft hversu mikils virði það er og hversu mikilvæg þau störf sem það innir af hendi eru fyrir borgina og fólkið sem býr í þessari borg.“ mbl.is/Hari

Það kom Sólveigu Önnu Jónsdóttur lítið á óvart að félagsmenn Eflingar sem starfa fyrir Reykjavíkurborg hafi samþykkt verkfall með 95,5% atkvæða fyrr í dag. Niðurstaðan sýnir svart á hvítu að fólkið er ósátt með sín kjör, að sögn Sólveigar, og vonar hún að borgaryfirvöld komi nú til móts við kröfur Eflingar.

Verkfallið nær til starfsfólks á leikskólum borgarinnar (þó ekki menntaðra leikskólakennara), starfsfólks hjúkrunarheimila, þeirra sem starfa í heimahjúkrun, sorphreinsun og gatnaumhirðu.

„Fólk er svo ótrúlega ósátt vegna þess að fólk veit sjálft hversu mikils virði það er og hversu mikilvæg þau störf sem það innir af hendi eru fyrir borgina og fólkið sem býr í þessari borg. Það gerir náttúrulega þetta sjúka óréttlæti óbærilegra. Hvernig má það vera að fólkið sem skiptir mestu máli á reykvískum vinnumarkaði, þau sem til dæmis halda leikskólunum gangandi og sinna gamla fólkinu, sé lægst launaðasta fólkið á íslenskum vinnumarkaði? Það er augljóst fyrir fólk sem hefur snefil af réttlætiskennd að það er ekki hægt að sætta sig við svona,“ segir Sólveig. 

Sólveig vann sjálf á leikskóla í tíu ár og þekkir …
Sólveig vann sjálf á leikskóla í tíu ár og þekkir því kaup og kjör starfsmanna vel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grundvallaratriði að fólk fái að smíða sína kröfugerð

Hún skrifaði undir svokallaðan lífskjarasamning fyrir tæpu ári ásamt forsvarsmönnum fleiri verkalýðsfélaga. Spurð hvort verið sé að ganga á bak þess samkomulags með baráttu Eflingar nú segir Sólveig:

„Félagsmenn mínir sem starfa hjá borginni hafa sjálfstæðan samningsrétt. Það er grundvallaratriði í samfélagsgerðinni okkar að fólk fái sjálft að smíða kröfugerð og koma að öllum samningaviðræðum við sína atvinnurekendur. Það er sjúklega ólýðræðislegt og sjokkerandi að verða vitni að því að fólk ætli að stilla félagsmönnum Eflingar upp sem einhverjum svikurum við lífskjarasamninginn.“

Sólveig vann sjálf á leikskóla í tíu ár og þekkir því kaup og kjör starfsmanna vel. Í haust heimsóttu hún og samstarfsmenn hennar fjölda leikskóla og starfsfólk annarra vinnustaða sem Efling fer með samningsumboð fyrir.

„Ef ég hefði einhvern tímann verið óviss um að fólk vildi öfluga kjarabaráttu þá sannfærðist ég mjög fljótt um það eftir að hafa rætt við þá félagsmenn Eflingar sem starfa á þessum vinnustöðum. Þá sannfærðist ég mjög fljótt um að hugur fylgdi máli hjá fólki, fólk orðaði það mjög skýrt.“

Sólveig hefur undanfarið heimsótt starfsfólk borgarinnar sem Efling semur fyrir. …
Sólveig hefur undanfarið heimsótt starfsfólk borgarinnar sem Efling semur fyrir. Hér er hún með Niuvis Sago Suceta, starfsmanni á leikskólanum Nóaborg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarstjóri þurfi að horfast í augu við staðreyndir

Sólveig hefur áður kallað á að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, komi með beinum hætti að samningaborðinu. Í ljósi afgerandi niðurstöðu um verkföll vonar Sólveig að borgaryfirvöld opni augun fyrir vilja fólksins. 

„Ég veit það að niðurstaðan sendir eins skýr skilaboð og hægt er að senda. Ég trúi ekki öðru en að þau sem fara með völd í þessari borg, þá sérstaklega borgarstjóri, horfist í augu við staðreyndirnar og stöðuna og geri það sem hann á að gera, axli ábyrgð á þessu stórkostlega alvarlega máli og mæti okkar kröfum og okkar tilboði af sanngirni með það að leiðarljósi að leysa þessa deilu sem allra fyrst.“

Krafa Eflingar er sú að hækkanir sem náðst hafa á almennum vinnumarkaði nái einnig til félagsmanna Eflingar sem nú eiga í viðræðum við borgina. 

„Jafnframt förum við fram á leiðréttingu og að það verði sérstök aðferð notuð sem gerir það að verkum að þessi leiðrétting nái þá bara til afmarkaðs hóps innan borgarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert