„Við erum að bregðast svona við af því þetta er svo nálægt byggð. Við teljum ekki líklegt að það sé neitt stórkostlegt að fara að gerast alveg strax,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is vegna meintrar kvikusöfnunar undir fjallinu Þorbirni á Reykjanesi, sem stendur við Grindavík.
„Þetta lítur út eins og byrjunin á einhverju langvarandi ferli frekar en eitthvað yfirvofandi, en af því þetta er alveg við bæjardyrnar á Grindavík verða menn að bregðast svolítið hraustlega við.“
Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna ástandsins, en um er að ræða hraðasta landris síðan mælingar hófust. Land hefur risið um 2 sentímetra frá 21. janúar og hafa skjálftar sömuleiðis verið tíðir á svæðinu.
Sólarhringsvakt Veðurstofunnar hefur aukið eftirlit með svæðinu, auk þess sem til stendur að gera þyngdarmælingu á svæðinu og setja upp fleiri mæla.
„Við erum að skipuleggja þetta. Fyrstu aðgerðir verða væntanlega strax á morgun. Það eru þarna skjálftamælar sem eru ekki tengdir á netið, heldur eru rannsóknarmælar, og fyrsta verk okkar verður að koma þeim inn í kerfi Veðurstofunnar,“ segir Benedikt.
„Síðan er stefnan að þyngdarmæla. Það hefur verið þyngdarmælt þarna áður og það getur gefið mjög góðar upplýsingar um hvort kvika er að safnast þarna fyrir eða ekki. Stefnan er að gera það strax á þriðjudag. Svo er stefnan að bæta við landmælingatækjum, GPS-mælum, það verður gert á morgun eða hinn eða um leið og hægt er í vikunni.“
Íbúafundur verður haldinn í Grindavík klukkan 16 á morgun þar sem verður farið nánar yfir stöðu mála með fulltrúum almannavarna, viðbragðsaðila og vísindamanna.