Óvissan veldur áhyggjum og kvíða

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Hanna

„Það er litið svo á að það sé ekkert alvarlegt að gerast svona í næstu framtíð en það ræðst hins vegar af því hvort þessi þróun heldur áfram. Það geta þá verið jarðskjálftar og hugsanlega kvikuhreyfingar og þetta er nokkuð sem menn reyna að vakta mjög vel.“

Þetta segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við mbl.is spurður hvort hætta sé á ferðum í Grindavík vegna landriss sem mælst hefur á Reykjanesskaganum og talið er að sé vegna kvikusöfnunar undir fjallinu Þorbirni.

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum virkjað óvissustig almannavarna vegna þróunarinnar og íbúafundur hefur verið boðaður í Grindavík klukkan fjögur síðdegis á morgun þar sem farið verður nánar yfir stöðu mála með fulltrúum almannavarna, viðbragðsaðila og vísindamanna.

Búið að bæta við jarðskjálftamælum 

Fannar segir íbúa Grindavíkur vissulega áhyggjufulla yfir óvissunni en þeir verði upplýstir jafnóðum um það við hverju megi búast.

„Það er auðvitað þannig að það sem fólk ekki þekkir og veit ekki hvað gæti þýtt veldur áhyggjum og kvíða. Á íbúafundinum verður gerð grein fyrir stöðunni og því sem menn telja að þetta þýði. Það er búið að bæta við jarðskjálftamælum á svæðinu þannig að menn vonast til að það verði einhver fyrirvari á því sem verst gæti gerst. Vonandi hjaðnar þetta og verður ekki að neinu en menn verða allavega viðbúnir ef eitthvað fylgir í kjölfarið.“

Rýmingaráætlanir eru til og verða yfirfarnar

Spurður hversu langan fyrirvara íbúar í Grindavík muni fá ef landrisinu fylgir stærri jarðskjálftahrina eða eldgos segist hann ekki geta svarað því að svo stöddu.

„Það er eitt af því sem þeir [vísindamenn] ætla að reyna að átta sig á til morguns. Ég held að ég megi segja það að miðað við upplýsingarnar sem við fengum í dag eiga menn von á því að það eigi talsvert meira eftir að gerast en nú er sýnilegt áður en einhver hætta sé á ferðum. En þetta þarf allt saman að vakta og við viljum auðvitað fá svör við þessu, þ.e. hvað við höfum langan tíma ef eitthvað alvarlegt gerist, og það verður gert á morgun eftir bestu getu,“ bætir hann við.

Þá segir hann að rýmingaráætlanir séu nú þegar til og þær verði yfirfarnar samhliða frekari upplýsingum sem berast frá Veðurstofunni og vísindamönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert