Flugrekstur og afleidd störf skila rúmum 1.213 milljörðum króna til vergrar landsframleiðslu (VLF) á Íslandi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðasambands flugfélaga (IATA) þar sem fjallað er um mikilvægi flugsamgangna og ferðaþjónustu fyrir Ísland.
Hlutfall flugreksturs af vergri landsframleiðslu Íslands er 38,3%. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir það einstakt á heimsvísu, en hann var meðal þeirra sem tók þátt í pallborðsumræðum þegar skýrslan var kynnt á fundi IATA, Icelandair og Samtaka ferðaþjónustunnar í dag.
„Mikilvægi ferðaþjónustu og flugs er mjög mikið fyrir íslenskt hagkerfi. Heildarhlutdeild flugs og ferðaþjónustu á þessu tímabili er rúmlega 38% sem er einstakt í heiminum og endurspeglar mikilvægi þessara greina fyrir hagkerfi og mikilvægi þess að þær nái að vaxa og dafna áfram,“ segir Bogi í samtali við mbl.is.
437 milljarðar króna koma beint úr flugrekstrinum sjálfum, það er frá flugfélögum, flugvöllum og þjónustu á jörðu niðri. Rúmlega 550 milljarðar króna koma frá ferðamönnum sem koma hingað til lands.
Flugrekstur stendur undir 72.000 störfum hér á landi, þar af eru 11.000 störf sem tilheyra flugrekstri með beinum hætti. 14.000 störf eru studd óbeint af aðfangakeðju flugrekstrarins og 6.000 störf sem leiða af neyslu starfsmanna flugrekstrarins og aðfangakeðju hans. Til viðbótar eru 41.000 manns sem starfa við afleidd störf.
Í skýrslunni kemur fram að Ísland er mikilvægur tengipunktur við borgir víða um heim og hefur flugsætum til Norður-Ameríku fjölgað um 317% frá 2013 til 2018, en tölur í skýrslunni miðast við árið 2018. Þá hefur flugsætum til Evrópu fjölgað um 58% á sama tíma.
Bogi segir tengingar við önnur lönd endurspegla bæði styrk Keflavíkur sem tengimiðstöðvar sem og leiðarkerfið Icelandair.
„Það kemur skýrt fram að flugtengingar milli Íslands og annarra landa eru mun meiri en hjá nokkru öðru Evrópuríki, miðað við mannfjölda, og í raun líka ef mannfjöldareikningum er sleppt,“ segir hann.
Á fundinum var einnig fjallað um samkeppnishæfni flugrekstrar á Íslandi og uppbyggingu og framtíð sjálfbærrar ferðaþjónustu og segir Bogi að áskoranir í ferðaþjónustu snúist einna helst að samkeppnishæfni landsins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn.
„Það er ýmislegt sem ferðamaðurinn er að kaupa sem er dýrara en í mörgum löndum sem við erum að keppa við. En á sama tíma er afkoma margra ferðaþjónustufyrirtækja ekki nógu góð. Þetta er ekki sjálfbært ástand að verðlag sé svona hátt en á sama tíma sé afkoma í greininni frekar slæm. Það þarf að auka framleiðni í greininni, það er verkefni greinarinnar og hið opinbera þarf að vinna með greininni í því. Eins og fram kemur í skýrslunni er þessi atvinnugrein mjög mikilvæg fyrir áframhaldandi hagvöxt í landinu.“
Spurður um aðgerðir sem hið opinbera þurfi að grípa til segir Bogi að fyrst og fremst verði að lækka skatta og gjöld á greinina og einfalda regluverkið. „Við sjáum það að skattlagning á Íslandi er mjög há í samanburði við þau lönd sem við berum okkur saman við. Þannig getur hið opinbera hjálpað til í þessu.“