Kostnaður Reykjavíkurborgar við að leiðrétta lægstu laun starfsmanna borgarinnar nemur tæplega fjórum bröggum samkvæmt greiningu Eflingar sem kynnt var á blaðamannafundi í Bragganum í Nauthólsvík í dag.
Framkvæmdir við þrjú hús við Nauthólsveg 100 sem samanstanda af bragga, náðhúsi og skemmu vöktu mikla athygli fyrir tæpum tveimur árum vegna hundraða milljóna króna framúrkeyrslu í framkvæmdum á húsunum á vegum borgarinnar. Forsvarsmenn Eflingar hafa nú sett kröfugerð félagsins í samhengi við kostnaðinn við braggann.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, kynnti kostnaðarmat félagsins á launaleiðréttingu Reykjavíkurborgar á fundinum þar sem kom meðal annars fram að þegar leiðrétting á kjörum ríflega 1.800 borgarstarfsmanna og fjölskyldna þeirra væri komin til áhrifa væri það á við tæplega fjóra bragga á ársgrundvelli. Á samningstímanum myndi rekstrarafgangur borgarinnar dekka kostnaðinn margfalt. Forsendur og útreikninga Eflingar má nálgast hér.
Verkfallsboðun félagsmanna Eflingar sem starfa fyrir Reykjavíkurborg var afhent borgarstjóra fyrir hádegi í dag, en félagsmenn samþykktu verkfallsaðgerðir í gær með 95,5 prósentum greiddra atkvæða.
Verkfallið nær til starfsfólks á leikskólum borgarinnar, fyrir utan menntaða leikskólakennara, starfsfólks hjúkrunarheimila, í heimahjúkrun og við sorp- og gatnaumhirðu. Verkfallsaðgerðir hefjast 4. febrúar en þá munu félagsmenn leggja niður störf frá hádegi til miðnættis.