Landrisið á Reykjanesskaga hefur haldið áfram í dag og er hraðinn sá sami og í gær samkvæmt mælingum og myndum.
„Þetta heldur bara áfram nákvæmlega eins og það var. Þetta er stöðug þensla og er þremur til fjórum millimetrum hærra síðan í gær. Þetta er að nálgast þrjá sentimetra,“ segir Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Benedikt telur langlíklegast að kvikusöfnun valdi þessari þenslu. „Hvað það þýðir með atburðarásina á næstunni er mun óljósara. Við erum mjög líklega að horfa á langtímaferli en það er ekki útilokað að hlutir gerist snöggt.“
Starfsmenn Veðurstofunnar eru byrjaðir að setja upp mælitæki til að vakta og greina betur framvindu atburða. Bæði verða tækin sett upp í dag og á morgun. Nokkrir skjálftamælar verða settir upp, ásamt GPS-mælum. Eftir það verður skoðað hvort fleiri mælum verður bætt við.
Snemma í morgun höfðu tíu jarðskjálftar orðið á svæðinu frá því seint í gærkvöldi. Að sögn Benedikts hafa nokkrir skjálftar bæst við og er virknin svipuð og áður. „Hún er ekkert gríðarlega mikil en hún er til staðar.“