„Ég veit svo sem ekki hvernig ruv virkar en mér er nú bara smá brugðið. Er fólk ekki hrætt um að hér séu hagsmunaárekstrar?“ Þetta skrifar Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, á Facebook en hún virðist ekki hrifin af ráðningu Stefáns Eiríkssonar í starf útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins.
„Nú verður okkur í minnihlutanum bara úthúðað á ruv og sagðar bara einhverjar englafréttir af meirihlutanum í borginni:) Dagur á þarna aldeilis góðan vin, hauk í horni,“ bætir Kolbrún við.
Stefán skrifaði pistil í lokaðan hóp starfsmanna Reykjavíkur á Facebook í febrúar í fyrra þar sem hann sakaði fáeina borgarfulltrúa um að hafa ítrekað vænt starfsfólk borgarinnar um óheiðarleika.
Skrifin gagnrýndu fulltrúar minnihlutans í borginni þar á meðal Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. Hún kallaði færsluna meðal annars „síðasta skítverkið fyrir borgarstjóra“.
„Svo sammála Kolbrún Baldursdóttir - eru allir búnir að gleyma því að hann kallaði okkur í minnihlutanum „tudda á skólalóð“. Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir okkur verð ég að segja - hlutleysi hvað?“ skrifar Vigdís við færslu Kolbrúnar.