Kári Jónasson, formaður stjórnar Ríkisútvarpsins, segir það hafa verið erfitt að komast að niðurstöðu um ráðningu nýs útvarpsstjóra, en Stefán Eiríksson, borgarritari Reykjavíkurborgar og fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, varð fyrir valinu eins og greint var frá í dag.
„Nei, þetta var erfitt,“ segir Kári, spurður um hið gagnstæða, hvort valið hefði verið auðvelt.
„Þetta var 41 umsækjandi og frábærir umsækjendur margir, karlar og konur með fjölbreyttan bakgrunn á ýmsum sviðum. En ég tel að við höfum valið þann hæfasta og besta og treystum honum vel til að leiða útvarpið á næstu fimm árum,“ segir Kári.
Hann segir að Stefán sé með „mikla reynslu á ýmsum sviðum sem á eftir að koma Ríkisútvarpinu eflaust mjög vel“ og að góð samstaða hafi verið um það í stjórninni að ráða hann. Einn stjórnarmaður sat þó hjá við atkvæðagreiðslu sem fram fór í gærkvöldi.
Nokkuð hefur farið fyrir umfjöllun um kærumál vegna ráðningar í stöður hjá stofnunum hins opinbera að undanförnu, en Kári segist ekki óttast að eitthvað verði hægt að fetta fingur út í það hvernig stjórn RÚV, sem naut liðsinnis Capacent í ráðningarferlinu, stóð að málum.
Styr hefur þegar staðið um þetta ráðningarferli, en sú ákvörðun að birta ekki lista umsækjenda opinberlega þótti umdeild. Hún var tekin til þess að reyna að laða að hæfari umsækjendur.
„Við höfum farið eftir öllum lögum og reglum og þetta er búið að fara í gegnum úrskurðarnefnd um upplýsingamál og við óttumst ekkert, við höfum bara farið eftir öllum lögum og reglum og eigum eftir að eiga gott samstarf við Stefán,“ segir Kári, spurður út í þetta.