Jarðskjálfti, 3,5 að stærð, varð klukkan 04:31 í nótt 1,9 km norður af Grindavík. Skömmu síðar kom annar skjálfti upp á 3,2 stig og nú á sjötta tímanum sá þriðji sem sennilega nær ekki þremur stigum. Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að töluvert hafi borist af tilkynningum frá íbúum í Grindavík enda upptök skjálftanna rétt við bæinn. Eins hafi borist tilkynningar frá íbúum í Reykjanesbæ.
„Þessir skjálftar eru rétt norður af Grindavík, á milli Þorbjörns og bæjarins,“ segir hann og segir greinilegt að virknin sé meiri í dag en í gær. Í gærdag var fremur rólegt og í gærkvöldi, en meiri virkni í nótt.
Hann segir að engin gosvirkni sé sjáanleg en áfram verði fylgst grannt með. Nýjum mælum til vöktunar var komið fyrir í gær. Búast má við áframhaldandi jarðskjálftavirkni á svæðinu. Næsti samráðsfundur vísindamanna verður haldinn á morgun.
Mælar Veðurstofunnar greina áframhaldandi landris við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga. Risið er á sama hraða og síðustu daga, 3-4 mm á dag, sem er óvenjuhratt. „Þróunin síðasta sólarhringinn er bara mjög svipuð og hún hefur verið frá upphafi. Það er stöðugt landris, þrír til fjórir millímetrar á dag, og það sem við sjáum í morgun er að það hefur haldið áfram,“ segir Benedikt Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands, á vef Veðurstofu Íslands.
Hann segir að búast megi við áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu. Benedikt ásamt öðrum sérfræðingum Veðurstofunnar vann í gær að uppsetningu á nýjum mælum til vöktunar á svæðinu í kringum Grindavík. „Það er stefnan að setja upp alla vega tvo mæla, einn uppi á fjallinu Þorbirni og síðan á ákjósanlegum stað vestan við fjallið,“ segir Benedikt.