Stafræn ökuskírteini líta dagsins ljós í vor þegar fólk getur kvatt bleika ökuskírteinið og haft upplýsingarnar í símanum. Dómsmálaráðherra segir að stafræn ökuskírteini verði til hagsbóta fyrir fólk enda síminn oftast með í för.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni.
Þar segir hún enn fremur að síðustu mánuði hafi verið unnið að útgáfu stafrænna ökuskírteini í samvinnu við ríkislögreglustjóra.
„Mikil þróun hefur verið í notkun öruggari snjallsímaþjónustu sem gerir það kleift að gefa ökuskírteini út með öðrum hætti en á plasti,“ skrifar ráðherra og heldur áfram:
„Nú er tæknileg útfærsla tilbúin og ekkert því til fyrirstöðu að hefja útgáfu á stafrænum ökuskírteinum fyrir snjallsíma, jafnt fyrir Android- og iOS-stýrikerfi. Notendur munu geta fengið stafrænu ökuskírteinin með því að sækja um þau á Íslandi með rafrænum skilríkjum.“
Stefnt er að því að koma rafrænum ökuskírteinum í gagnið fyrir 1. júní á árinu.
🚙Hversu oft er þetta með í för þegar þú ferð út að keyra?
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) January 29, 2020
📲Hversu oft er síminn með?
💁♀️Ég veit að þessi mynd er æði. pic.twitter.com/xgLewROM3N