Hefði ekki sofið þann stærsta af sér

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Maður hefði ekki sofið þennan stærsta af sér,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við mbl.is spurður hvort hann hefði verið farinn að sofa þegar jarðskjálftar upp á 4,3 og 4,0 urðu í grennd við bæinn í kvöld.

„Þessi stærsti var talsvert snarpur þannig séð. Það fannst vel fyrir honum,“ segir Fannar enn fremur í samtali við blaðamann. Ýmislegt hafi nötrað en ekkert dottið úr hillum hjá honum eða neitt slíkt. „Þetta var svona sýnu stærsti skjálftinn í þessari hrinu.“

Sérfræðingar segja að jarðskjálftarnir í kvöld séu ekki til marks um að eldgos sé á næsta leiti. Fannar segir þetta vera hluta af því sem hafi verið búið að segja að eiga mætti von á. „Þetta er nú eitthvað sem þeir höfðu sagt okkur að gæti gerst og myndi gerast. Þeir gætu orðið snarpari en verið hefði. Þannig að í sjálfu sér þarf það ekki að koma á óvart.“

„Þetta er svona partur af þessum hreyfingum sem mátti búast við núna. Við erum með þetta viðbúnaðarkerfi tilbúið ef eitthvað annað er í vændum og treystum á þessa vöktun sem er fyrir hendi,“ segir bæjarstjórinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert