„Ljóst er á tímum loftslagsbreytinga að ekki er í boði að halda áfram að setja meira fjármagn í framkvæmdir sem skapa aukið rými fyrir bílaumferð þar sem þær framkvæmdir munu bæði skapa aukna bílaumferð og auka losun á CO2 frá samgöngum.“
Þetta segir m.a. í bókun fulltrúa meirihlutaflokkanna í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur. Á fundinum var lögð fram að nýju umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi vegna gerðar fráreinar í akstursstefnu til austurs og breikkunar rampa til suðurs á Kringlumýrarbraut ásamt breytingu á akstursleið inn á rampann frá norðurakbraut Bústaðavegar og setja ný umferðarljós á rampann.
Þessar framkvæmdir voru vel á veg komnar þegar þær voru stöðvaðar í ágúst í fyrra, m.a. vegna þess að þær voru ekki kynntar fyrir íbúum í nágrenninu áður en ráðist var í þær. Var þetta niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir kæru íbúanna, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.