„Þetta vofir yfir“

Þorbjörn gnæfir yfir Grindavíkurbæ.
Þorbjörn gnæfir yfir Grindavíkurbæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að margir séu ekkert mikið að spá í þetta. En það var skjálfti í gærkvöldi, sem allir fundu vel fyrir, og þá er maður minntur verulega á þetta.“ Þetta segir Sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkursókn, í samtali við mbl.is um óvenjumikið landris á Reykjanesi og áhrif þess á andann í bænum. „Auðvitað er það misjafnt í svona stóru bæjarfélagi hvað fer í gang hjá fólki.“

Hún segir hins vegar: „Þetta vofir yfir. Óvissa fer yfirleitt ekki vel með okkur sálarlega. Óvissa er eitthvað sem er manninum ekki tamin.“ Þá bætir hún við: „Þetta hangir yfir þér. Þótt þú sért ekki með hugann við þetta allan daginn þá ertu yfirleitt mjög reglulega minntur á þetta. Undanfarið eru búnar að vera tíðar drunur í jörðinni á hverjum einasta sólahring.“

Grindavíkurkirkja. Sr. Elínborg er sóknarprestur í Grindavíkursókn.
Grindavíkurkirkja. Sr. Elínborg er sóknarprestur í Grindavíkursókn. Mbl.is/Sigurður Ægisson

Best að halda sig við staðreyndir

Þegar mbl.is náði tali af Elínborgu var hún nýmætt í Kvikuna, menningarhús Grindvíkinga, þar sem í dag er opið hús. Elínborg verður þar og svarar spurningum þeirra sem spurningar hafa. Þá er opinn jógatími klukkan 13 og milli 14 og 17 verður Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á staðnum til að spjalla við gesti og gangandi.

Spurð hvaða ráð hún gefi þeim sem séu bangnir vegna jarðhræringanna segir Elínborg að hún telji að sniðugt sé að hvetja fólk til að koma saman, líkt og gert er í Kvikunni í dag, og bætir við: „Og ef þú vilt skoða meira hvað er að gerast innra með þér þá er ég til staðar.“

Fjölmennur fundur var haldinn í Grindavík á mánudag. Þó að …
Fjölmennur fundur var haldinn í Grindavík á mánudag. Þó að fólk sé ekki með hugann við hættuna allan daginn þá vofir hún yfir, segir Elínborg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá leggur hún áherslu á að best sé að halda sig við staðreyndir, og treysta því sem kom fram á íbúafundinum sem haldinn var fyrr í vikunni. „Halda sig við það sem vísindamennirnir segja. Miðað við það sem sagt er, og reynslu vísindamannanna, þá munum við alla vega öll komast af. En það breytir því ekki að það er uggur í fólki mörgu.“ 

Mælar frá Veðurstofu Íslands í námunda við Þorbjörn.
Mælar frá Veðurstofu Íslands í námunda við Þorbjörn. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert