„Íslandspóstur ohf. er í eigu íslenska ríkisins og rekið sem opinbert hlutafélag sem í raun þýðir að rekstur og ákvarðanataka fyrirtækisins er alfarið á viðskiptalegum grunni. Pólitískar áherslur á hverjum tíma skipta þar engu máli.“ Þetta er á meðal þess sem segir í tilkynningu sem Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, sendir fjölmiðlum í kjölfar frétta um verðhækkun Póstsins á dreifingu blaða og tímarita.
Þar útskýrir hann forsendurnar að baki þeirri ákvörðun að leggja niður sérstaka verðskrá fyrir dreifingu á blöðum og tímaritum, en ákvörðunin hefur farið illa ofan í suma.
„Viðskiptavinum Póstsins sem hafa nýtt sér þessa þjónustu var tilkynnt um þessa breytingu nú í lok janúar. Ekki er venjan að tilkynna slíkar verðbreytingar í fjölmiðlum en í ljósi þess að ákveðnir viðskiptavinir, sérstaklega útgefendur héraðsfréttablaða, hafa stigið fram og skýrt frá þessum breytingum er rétt að Pósturinn útskýri hvernig í pottinn er búið.
Íslandspóstur ohf. er í eigu íslenska ríkisins og rekið sem opinbert hlutafélag sem í raun þýðir að rekstur og ákvarðanataka fyrirtækisins er alfarið á viðskiptalegum grunni. Pólitískar áherslur á hverjum tíma skipta þar engu máli. Það er því ekki hlutverk stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins að hugsa um neitt annað en að félagið sé rekið á sem hagkvæmastan og ábyrgastan máta og skili ríkinu hámarksarðsemi á sama tíma og þjónusta við viðskiptavini er í forgrunni. Sama og í öllum öðrum rekstri. Þessi verðbreyting er því algerlega ótengd málum sem kunna að vera í umræðunni eða til meðferðar á Alþingi. Hún er algerlega tekin á viðskiptalegum forsendum.
Það er ljóst að Pósturinn hefur verið í umtalsverðum taprekstri undanfarin ár og í þeirri endurskipulagningu sem nú fer fram er öllum steinum velt við til þess að umbreyta fyrirtækinu og koma því á fast land.
Pósturinn hefur um árabil haft sérstaka verðskrá sem gildir um dreifingu á blöðum og tímaritum. Þessi verðskrá gefur útgefendum mun lægri verð á dreifingu en hægt er að réttlæta miðað við þann kostnað sem fellur til við dreifinguna. Almennar verðhækkanir á markaði, kjarasamningum og öðru hafa sömu áhrif á Póstinn og önnur fyrirtæki á Íslandi og eðli málsins samkvæmt eykst því alltaf þrýstingurinn á verðhækkanir.
Pósturinn er einnig undir smásjá eftirlitsstofnana og er, eins og öðrum fyrirtækjum í sömu stöðu, óheimilt að stunda hvers kyns niðurgreiðslur eða að selja þjónustu undir kostnaðarverði. Kostirnir sem Pósturinn hefur í þessu máli eru annaðhvort að hækka verðskrána eða hætta á að fá á sig ákærur fyrir brot á samkeppnislögum. Að sjálfsögðu er eini raunverulegi kosturinn þá að hækka verðin,“ skrifar Birgir.
„Um áramótin síðustu tóku ný póstlög gildi. Á sama tíma féll einkaréttur Íslandspósts niður, viðræður við ríkið standa yfir um gerð þjónustusamnings um póstþjónustu á svæðum sem ekki standa undir sér í samkeppnisumhverfi, eins og t.d. í dreifbýli. Í þessum viðræðum hefur Pósturinn bent viðsemjendum sínum á nokkur mál sem standast illa skoðun í almennum rekstri, má þar meðal annars nefna útgáfu á frímerkjum og svo þessi tiltekna verðskrá fyrir blöð og tímarit. Afstaða viðsemjenda hefur verið skýr, ríkið mun ekki niðurgreiða eða bæta Póstinum það tap sem verður til við það að halda úti þessari starfsemi eins og þessari sértæku verðskrá fyrir blöð og tímarit. Þá er lítið annað að gera en að hækka verðin svo að verðlagningin standist skoðun og fylgi lögum og það er það sem var gert.
Ég vísa því algerlega á bug að hér sé um pólitískt mál að ræða eða að það sé einhver önnur ástæða fyrir þessari verðhækkun en áðurnefndar ástæður. Ef útgefendur héraðsfréttamiðla eða aðrir vilja sækja ríkisaðstoð þá er það ekki hlutverk Íslandspósts að veita hana frekar en annarra fyrirtækja á markaði og því er varla sanngjarnt að fyrirtækið sé úthrópað með þeim hætti sem nefnt er hér að framan.
Pósturinn mun veita þessum viðskiptavinum sínum sína allra bestu þjónustu hér eftir sem hingað til og vonast eftir skilningi þeirra á þessu erfiða máli,“ skrifar Birgir enn fremur.