Gagnrýnivert að breyta leikreglum undir þrýstingi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tilkynnti um helgina að brottvísun pakistanskrar fjölskyldu …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tilkynnti um helgina að brottvísun pakistanskrar fjölskyldu yrði frestað vegna þess hve langan tíma málsmeðferð hennar hafði tekið og boðaði um leið breytingar á hámarkstíma málsmeðferðar úr 18 mánuðum í 16. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðherra segir það gagnrýnivert að leikreglum í meðferð umsókna um alþjóðlega vernd hafi verið breytt í mikilli samfélagsumræðu, en að í þessu tilviki hafi umræðan varpað ljósi á það hve sum mál taki enn langan tíma.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tilkynnti um helgina að brottvísun pakistanskrar fjölskyldu yrði frestað vegna þess hve langan tíma málsmeðferð hennar hefði tekið og boðaði um leið breytingar á hámarkstíma málsmeðferðar úr 18 mánuðum í 16. Henni hafði þá borist undirskriftalisti með um 17 þúsund nöfnum þar sem farið var fram á að fjölskylda hins sjö ára gamla Muhammeds, sem hefur dvalið á Íslandi í 26 mánuði, fengi hér vernd.

Aðspurð hvernig hún ætli að sjá til þess að barnafjölskyldur fái hraðari málsmeðferð segir Áslaug Arna að hún hyggist ræða við Útlendingastofnun um forgangsröðun og óska eftir auknum fjármunum til stofnunarinnar.

Vakandi fyrir breytingum

„Það er skýr vilji löggjafans að taka sérstakt tillit til barna,“ segir Áslaug Arna. Það sé skýr vilji bæði ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins að flýta þessum málsmeðferðum.

„Við erum alltaf að bæta kerfið okkar en höfum átt fullt í fangi með að taka við þessum fjölda umsækjenda. Fyrir tíu árum voru 35 umsóknir, en árið 2017 voru þær orðnar yfir þúsund á ári. Kostnaður hefur aukist gífurlega í takt við það og eðli málaflokksins kallar á sífellda endurskoðun því þetta er neyðarkerfi fyrir þá sem þurfa á vernd að halda. Við þurfum að vera vakandi fyrir breytingum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka