„Takk, maður úti í bæ með mjög há laun, fyrir að kasta skít í risastóran hóp láglaunakvenna sem berjast fyrir því að eiga kannski stundum nokkra þúsundkalla til eyða í sig sjálfar af því að baráttuaðferðir þeirra eru ekki þér að skapi.“
Þetta skrifa Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, þar sem hún svarar facebookfærslu Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, frá því í gær.
Sólveig lætur auk þess tjáknið (e. emoji) fyrir skít fylgja með og virðist hún því gefa skít í langa færslu þingmannsins um kjaraviðræður Eflingar við borgina.
Björn sagði meðal annars að hann gæti ekki stutt áróðursherferð Eflingar í kjaraviðræðum stéttarfélagsins við Reykjavíkurborg. Þingmaðurinn sagði að himinn og haf væri á milli þess að styðja Eflingu og styðja láglaunafólk.