Samningsumboð félagsmanna sé virt

Viðar Þorsteinsson er framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson er framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efling fagnar því að borgarfulltrúar í Reykjavík stígi fram og tjái sig um kjaraviðræður borgarinnar við láglaunafólk í Eflingu. Efling vill þó koma á framfæri athugasemd við yfirlýsingu fulltrúa borgarmeirihlutans sem bókuð var á fundi borgarráðs Reykjavíkur 30. janúar. Yfirlýsingin var lögð fram af Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, Líf Magneudóttur, Dóru Björt Guðjónsdóttur og Heiðu Björg Hilmisdóttur.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Eflingu stéttarfélagi í framhaldi af bókun borgarfulltrúa meirihlutans frá því á fimmtudag.

Í bókun borgarfulltrúanna er talað um samstöðu sem staðfest hafi verið með lífskjarasamningum sem undirritaðir voru í apríl í fyrra. „Enn fremur er fullyrt að „öll verkalýðsfélög landsins sem lokið hafa samningum [hafi] samið á grunni þeirra“,“ segir í yfirlýsingu Eflingar.

Stéttarfélagið bendir á að það samþykki sem félagsmenn Eflingar á almennum vinnumarkaði gáfu við kjarasamningi Eflingar og SA með atkvæðagreiðslu í apríl 2019 feli ekki í sér samþykki á einu eða neinu fyrir hönd félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg.

Undirritun kjarasamnings á almennum vinnumarkaði fyrir tæpu ári bindur því ekki hendur samninganefndar Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg. Efling óskar þess að samningsumboð félagsmanna sé virt,“ kemur fram í yfirlýsingu Eflingar.

Efling hefur bent á að kjarasamningsákvæði, kjör og starfsaðstæður sem snúa að borgarstarfsmönnum eru ólík því sem þekkist á almennum vinnumarkaði. Af þeirri ástæðu einni er hæpið að forsendur og útfærslur samninga á almennum vinnumarkaði geti átt við um láglaunafólk hjá borginni. Láglaunafólk hjá sveitarfélögum er bundið taxtalaunum án möguleika á því að semja um markaðslaun og hefur í mörgum tilfellum mjög takmarkaðan aðgang að yfirvinnu og vaktavinnu. Þá hafa ráðningarbann í kjölfar kreppu og þensla síðasta áratugar haft sérstök áhrif á mönnun og álag á grunnstofnunum borgarinnar,“ kemur enn fremur fram í yfirlýsingu Eflingar.

Fundi í kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar lauk án samkomulags í morgun og því verða verkföll í borginni á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert