„Við blasa krefjandi verkefni“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Adrian Hasler, forsætisráðherra Liechtenstein, og Ernu …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Adrian Hasler, forsætisráðherra Liechtenstein, og Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, og Adrian Hasler, forsætisráðherra Liechtenstein, á leiðtogafundi EFTA-ríkjanna, sem haldinn var í Ósló í morgun.

Á fundinum var rætt sérstaklega um samstarf EFTA-ríkjanna í samskiptum við Bretland á árinu en þar eiga ríkin marga sameiginlega hagsmuni. Þá var rætt um samstarf á sviði fjármálamarkaða innan EES-samningsins, aukið samstarf á sviði vinnumarkaðsmála og nauðsyn þess að taka hart á brotastarfsemi á vinnumarkaði og félagslegum undirboðum. Þá ræddu leiðtogarnir sérstaklega um aðgerðir gegn loftslagsvánni og samstarf EFTA-ríkjanna við ESB um sameiginleg markmið um losun gróðurhúsalofttegunda. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins. 

Á undan leiðtogafundi EFTA-ríkjanna áttu Katrín og Solberg tvíhliða fund þar sem einnig var rætt um loftslagsmál og næstu áætlanir ríkjanna um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og stöðuna í samningum um fiskveiðar úr deilistofnum. Þá fór Katrín yfir þær aðgerðir sem Ísland hefur gripið til til að tryggja varnir gegn peningaþvætti í tengslum við FATF-samstarfið.

„Það er mikilvægt að treysta stoðir EFTA-samstarfsins innan EES, ekki síst þegar við blasa krefjandi verkefni eins og samningsgerð við Bretland í kjölfar Brexit. Þar eiga EFTA-ríkin ýmsa sameiginlega hagsmuni og við munum hafa náið samstarf í tengslum við þessa samningagerð. Þá eru ýmsar aðrar áskoranir sem blasa við á hinu alþjóðlega sviði, eins og loftslagsváin, sem kalla á náið alþjóðlegt samstarf. Þar munu EFTA-ríkin eiga áfram gott samstarf við ESB, hér eftir sem hingað til,“ segir Katrín í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert