Þrátt fyrir hlutfallslega mesta fólksfjölgun síðustu áratugi hefur fæðingartíðni á Íslandi hríðlækkað og aldrei verið lægri. Frá árinu 2009 hefur hún fallið úr að meðaltali 2,2 börnum á hverja konu í 1,7 börn að meðaltali í fyrra.
Þetta kemur fram í State of the Nordic Region, nýrri skýrslu frá Norrænu ráðherranefndinni sem Nordregio tók saman.
Þar kemur einnig fram að Ísland og Noregur eru einu lönd Norðurlanda sem juku losun gróðurhúsalofttegunda frá 1990 til 2017 og reyndar trónir Ísland á toppnum í Evrópu þegar skoðuð er losun á hvern íbúa. Ísland er aftur á móti með hæst hlutfall endurnýjanlegrar orku, 72 prósent, en Noregur fylgir fast á eftir með 71 prósent.
Sömuleiðis kemur fram í skýrslunni að norrænu höfuðborgirnar búa yfir mestri samkeppnishæfni allra svæða á Norðurlöndum. Reykjavík er í fjórða sæti á eftir Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Fyrst og fremst er það ónæg framleiðni og takmarkað fjármagn til rannsókna og þróunar sem dregur höfuðborgarsvæðið niður.
Fæðingartíðni hefur lækkað mikið undanfarinn áratug alls staðar á Norðurlöndum og er nú í sögulegu lágmarki á Íslandi, í Noregi og í Finnlandi. Fæðingartíðni á Íslandi, sem lengi var með þeim hæstu í Evrópu, hefur fallið hratt frá árinu 2009 þegar hún var að meðaltali 2,2 börn á hverja konu í aðeins 1,7 börn að meðaltali árið 2019, að því er segir í skýrslunni.
Nú er fæðingartíðni hér á landi örlítið lægri en í Svíþjóð (1,76) og Danmörku (1,72). Færeyjar eru eina svæðið þar sem fæðingartíðnin er nægilega há til að stuðla að náttúrulegri fólksfjölgun eða 2,5 börn á hverja konu. Helsta ástæða þessarar þróunar er að konur eignast sitt fyrsta barn mun seinna en áður tíðkaðist. Árið 1990 var fæðingartíðni hæst meðal kvenna á aldrinum 25–29 ára en í dag er tíðnin hæst í aldurshópnum 30–34 ára.
Breytinga fór að gæta á tíunda áratugnum þegar algengara varð að konur biðu með barneignir þar til þær höfðu menntað sig. Innflytjendur hafa haldið við endurnýjun íbúa á mörgum fámennari og afskekktari svæðum sem annars myndu glíma við fólksfækkun. Þannig varð fólksfjölgun í 26 prósentum sveitarfélaga á Norðurlöndum á árunum 2010 til 2018 einungis vegna innflytjenda.
„Samhliða lækkandi fæðingartíðni stuðla bætt heilsa og aukin lífsgæði að því að samfélögin eldast. Lífslíkur fólks við fæðingu hafa aukist alls staðar á Norðurlöndum frá árinu 1990 og heldur meira hjá körlum og því hefur dregið saman með kynjunum,“ segir Kjell Nilsson, forstjóri Nordregio, í tilkynningu.
Búast má við að lífslíkur fólks haldi áfram að aukast og því mega karlar reikna með að lifa í rúmlega 87 ár og konur í rúmlega 91 ár árið 2080. „Áhugavert er að skoða lífslíkur og aldurssamsetningu í löndunum sem heild en það er ekki síður áhugavert að sjá hvernig útkoman er mismunandi eftir svæðum. Í mínu heimahéraði, Kronoberg í Svíþjóð, eru lífslíkur karla til dæmis mestar á Norðurlöndunum,“ bætir Nilsson við.
Frá 1990 til 2019 fjölgaði fólki hlutfallslega langmest á Íslandi af norrænu löndunum eða um 40,7 prósent, en næst á eftir fylgdi Noregur með tæplega 26 prósenta fjölgun. Á sama tíma fjölgaði Finnum aðeins um 10,9 prósent og Grænlendingum um 0,8 prósent. Heildarfólksfjölgun á Norðurlöndum frá 1990 er 18 prósent.
Í skýrslunni eru bornar saman tölfræðilegar upplýsingar frá 74 svæðum á Norðurlöndum og þeim raðað eftir samkeppnishæfni með hliðsjón af því hvernig þeim tekst að laða að sér bæði fjármagn og mannauð.
Höfuðborgarsvæðið heldur fjórða sætinu frá því fyrir tveimur árum en Ósló er í toppsæti listans. Kaupmannahöfn og nágrenni verma annað sætið og Stokkhólmur hefur fallið af toppnum í þriðja sætið. Þegar nánar er rýnt í tölurnar sést að flokkarnir verg svæðisbundin framleiðsla og fjármagn veitt til rannsókna og þróunar draga höfuðborgarsvæðið helst niður. Reykjavíkursvæðið stendur annars vel, sérstaklega varðandi þætti er snúa að atvinnuþátttöku og lýðfræðilegri þróun.
Fjögur svæði á Íslandi skora hátt í norrænum samanburði og eru í fjórum efstu sætunum þegar aðeins eru skoðuð dreifbýlissvæði. Efst eru Suðurnes, svo Norðurland eystra, því næst Suðurland og loks Vesturland. Þess ber þó að geta að nýjustu tölfræðiupplýsingar eru frá byrjun árs 2019 eða fyrir gjaldþrot WOW og þær efnahagslegu áskoranir sem fylgt hafa í kjölfarið.
Eins hamlar skortur á tölfræði frá Íslandi eftir svæðum og sveitarfélögum samanburði við mörg svæði annarra norrænna landa þar sem slíkar upplýsingar eru aðgengilegar og markvisst skráðar eftir svæðum. Skortur á svæðisbundinni skráningu mikilvægra tölfræðiþátta á Íslandi getur þess vegna valdið skekkjum í nákvæmni mælinga á landsbyggðinni.
Ísland og Noregur eru einu lönd Norðurlanda sem juku losun gróðurhúsalofttegunda frá 1990 til 2017 og reyndar trónir Ísland á toppnum í Evrópu þegar skoðuð er losun á hvern íbúa. Helstu skýringar á þróuninni á Íslandi og í Noregi eru áhrif orkufreks iðnaðar eins og álvera og olíuiðnaðar annars vegar og samgangna hins vegar.
Losun á hvern íbúa á Íslandi vegna samgangna jókst um 57 prósent frá 2000 til 2017 sem meðal annars má rekja til aukins fjölda ferðamanna. Þá jókst orkunotkun vegna húshitunar um 22 prósent á sama tímabili. Þessi þróun í orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda er á skjön við markmið um kolefnishlutleysi árið 2040.
Löndin hafa aftur á móti öll aukið hlutfall endurnýjanlegrar orku frá 2004 til 2017. Ísland er í forystu með 72 prósent hlutfall endurnýjanlegrar orku, Noregur fylgir fast á eftir með 71 prósent en þar á eftir koma Svíþjóð með 54 prósent, Finnland með 41 prósent og Danmörk með 36 prósent. Danir, sem reka lestina, juku hlutfall sitt þó mest á tímabilinu eða um 21 prósent þegar hlutfallið jókst um 13 prósent á Íslandi.