Hefur mestar áhyggjur af einstæðum foreldrum

Feðgarnir Sverrir Örn Gunnarsson og Alexander Ingi fyrir utan leikskólann …
Feðgarnir Sverrir Örn Gunnarsson og Alexander Ingi fyrir utan leikskólann Árborg í hádeginu. Sverrir hefur þó minnstar áhyggjur af áhrifum verkfallsaðgerða félagsmanna Eflingar á eigin fjölskyldu og er frekar hugsað til einstæðra foreldra í þessum aðstæðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sverrir Örn Gunnarsson er meðal hundraða foreldra sem sækja þurftu börn sín í leikskóla borgarinnar í hádeginu þegar verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hófst. Sverrir og sonur hans Alexander Ingi voru nokkuð brattir þegar blaðamaður mbl.is náði tali af þeim fyrir utan leikskólann Árborg í hádeginu.  

„Auðvitað viljum við að starfsfólk fái sínar kjarabætur, þau eru á alltof lágum launum það sjá það allir,“ segir Sverrir, sem þurfti að endurskipuleggja vinnudaginn vegna verkfallsins. Hann hefur þó minnstar áhyggjur af áhrifum verkfallsaðgerðanna á eigin fjölskyldu. „Ég hef mestar áhyggjur af einstæðum foreldrum, við getum hóað í ömmur og afa, ekki kannski í öllum tilvikum, en manni verður hugsað til fólks sem hefur ekki þann lúxus.“

Starfsmenn leikskólans Árborgar sem eru félagsmenn Eflingar lögðu niður störf …
Starfsmenn leikskólans Árborgar sem eru félagsmenn Eflingar lögðu niður störf klukkan 12:30 í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er þeirra réttur“

Joanna Burliga sótti son sinn Gabriel í hádeginu en hún segir verkfallið ekki hafa teljandi áhrif þar sem hún sé í atvinnuleit þessa stundina. „En Gabriel elskar að fara í leikskólann en honum finnst líka gott að vera heima, honum finnst ekki gaman að vakna á morgnana,“ segir Joanna og hlær.

Hún segist fylgjandi kjarabaráttu félagsmanna Eflingar að öllu leyti. „Þetta er þeirra réttur.“

Joanna Burliga sótti son sinn Gabriel í hádeginu þegar verkfallsaðgerðir …
Joanna Burliga sótti son sinn Gabriel í hádeginu þegar verkfallsaðgerðir félagsmanna Eflingar hófust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nær ekki að sinna vinnunni almennilega

Elsa Dóra Jóhannsdóttir sótti son sinn Jóhann Dreka upp úr klukkan 12 og segir hún verkfallið hafa töluverð áhrif á hana sjálfa. „Ég næ ekki að sinna vinnunni almennilega og þarf að taka meira frí, það bitnar svolítið á mér líka, ég þarf að vinna þetta upp á öðrum tímum.“

Hún tekur þó fram að hún styðji kjarabaráttu leikskólaliða og annarra félagsmanna Eflingar. „Algjörlega. Mér finnst þetta mikilvægt fólk sem sinnir mikilvægu starfi og á að fá borgað fyrir það.“ Elsa sér fyrir sér að þurfa að taka meira frí næstu daga vegna fyrirhugaðra verkfallsaðgerða. „Maður reynir að púsla þessu saman.“

Elsa Dóra Jóhannsdóttir sótti son sinn Jóhann Dreka á Árborg …
Elsa Dóra Jóhannsdóttir sótti son sinn Jóhann Dreka á Árborg í hádeginu. Verkfallið hefur töluverð áhrif á vinnu Elsu sem hún segist þurfa að bæta upp seinna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefur meiri tíma fyrir meistarann

Ólafur Valgarð Sigurðsson sótti son sinn Sigurð einnig í hádeginu, en þær upplýsingar fengust hjá leikskólastjóranum að sumir foreldrar hefðu jafnvel ákveðið að hafa börn sína heima í allan dag í stað þess að sækja þau í hádeginu. 

Verkfallið hefur minni háttar áhrif á Ólaf og fjölskyldu þar sem hann er í atvinnuleit. „Það eru kostir og gallar við þetta. Ég er atvinnulaus og hef meiri tími fyrir meistarann.“

Ólafur segir stöðuna sem upp er komin í kjaraviðræðum í raun ömurlega. „Það er ömurlegt að það sé ekki búið að semja við þau, það er þverleiki í þessum sem stjórna, ég held að það sé málið,“ segir Ólafur, sem styður baráttu Eflingar 100%. „Ég held að flestir geri það.“

Ólafur Valgarð Sigurðsson og Sigurður á leið heim úr leikskólanum …
Ólafur Valgarð Sigurðsson og Sigurður á leið heim úr leikskólanum í hádeginu í dag. Ólafur segir að staðan hafi ýmsa kosti og galla þar sem hann er atvinnulaus en því fylgi sá kostur að hafa „meiri tíma fyrir meistarann,“ soninn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verk­fallsaðgerðirn­ar ná yfir sex daga í um 95 klukku­stund­ir alls, ým­ist frá há­degi til miðnætt­is eða í heil­an sól­ar­hring. Ná­ist ekki samn­ing­ar fyr­ir 17. fe­brú­ar leggja fé­lags­menn niður störf sama dag og ótíma­bundið eft­ir það. 

Dagskrá vinnustöðvananna er sem hér segir: 

Þriðju­dag­ur 4. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12.30 og fram til klukk­an 23.59.

Fimmtu­dag­ur 6. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukk­an 23.59.

Þriðju­dag­ur 11. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12.30 og fram til klukk­an 23.59.

Miðviku­dag­ur 12. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukk­an 23:59.

Fimmtu­dag­ur 13. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukk­an 23.59.

Mánu­dag­ur 17. fe­brú­ar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og ótíma­bundið eft­ir það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert