Vilja framselja Íslending til Rússlands

Rússneskir hermenn á gangi á Rauða torginu í Moskvu.
Rússneskir hermenn á gangi á Rauða torginu í Moskvu. AFP

Króatísk stjórnvöld vilja framselja íslenskan ríkisborgara til Rússlands eftir að maðurinn, sem er af rússnesku bergi brotinn, var handtekinn á landamærum Slóveníu og Króatíu í fyrra, sakaður um spillingu í starfi.

Þetta staðfestir Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, en RÚV greindi frá málinu.

Maðurinn fékk alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir nokkrum árum og síðar ríkisborgararétt. Maðurinn var í fríi með fjölskyldu sinni á meginlandi Evrópu síðasta sumar og ætlaði að fara til Króatíu en var handtekinn á landamærunum á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar frá Interpol sem rússnesk yfirvöld höfðu gefið út, að sögn RÚV.

Dómsmál vegna framsals hans er til meðferðar í Króatíu. Hæstiréttur landsins óskaði eftir forúrskurði dómstóls ESB í málinu og fór málflutningur fyrir yfirdeild dómstólsins fram í síðustu viku en málið hefur fengið flýtimeðferð. 

Í málinu reynir á reglur ESB-réttar og EES-réttar og túlkun evrópsku handtökuskipunarinnar. Það snýst í grunninn um hvort Króatar megi framselja manninn til Rússlands án þess að láta íslensk stjórnvöld vita um málið fyrir fram og án þess að íslensk stjórnvöld geti gefið út evrópska handtökuskipun, fengið manninn afhentan til Íslands og tekið yfir saksókn í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert