Á ekki von á viðsnúningi

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst ís­lenska ríkið halda frammi mjög kröft­ug­um, mál­efna­leg­um og rök­föst­um mál­flutn­ingi,“ seg­ir Sig­ríður Á. And­er­sen, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra, sem stödd var í dómsal í Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu í dag, þar sem yf­ir­deild dóm­stóls­ins tók fyr­ir Lands­rétt­ar­málið svo­kallaða.

Sig­ríður seg­ir ís­lenska ríkið hafa fengið bresk­an lög­mann til þess að flytja málið, sem hafi yf­ir­grips­mikla þekk­ingu á þessu rétt­ar­sviði og mikla reynslu af mál­flutn­ingi fyr­ir Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um. „Ég held það skipti mjög miklu máli, og hann gat svarað, án nokk­urra mála­leng­inga, öll­um þeim spurn­ing­um sem var beint til ís­lenska rík­is­ins, og jafn­vel fleiri spurn­ing­um en beint var til hans. Það var allt sam­an mjög sann­fær­andi og ef­laust upp­lýs­andi fyr­ir marga sem þekkja málið kannski ekki eins vel og ég að fylgj­ast með þess­um mál­flutn­ingi.“

Reyndi að skapa and­rúms­loft spill­ing­ar á Íslandi

„Ef það var eitt­hvað sem kom mér á óvart þá var það hvað lögmaður kær­anda í þessu máli var staðfast­ur í sín­um mein­lok­um, að halda sig við þenn­an mál­flutn­ing að reyna að skapa eitt­hvert and­rúms­loft spill­ing­ar [á Íslandi] og póli­tískt skít­kast í minn garð og jafn­vel embætt­is­dóm­ara á Íslandi. Hann hélt því til streitu í mál­flutn­ingn­um, svo það var lít­il lög­fræði af þeirri hliðinni.“

Landsréttarmálið var tekið fyrir í yfirdeild MDE í dag.
Lands­rétt­ar­málið var tekið fyr­ir í yf­ir­deild MDE í dag. mbl.is/​Hall­ur Már

Sig­ríður seg­ist aldrei hafa átt von á því að yf­ir­dóm­stóll­inn sneri niður­stöðu und­ir­dóms­ins. „Ég hef aldrei átt von á því bara í ljósi þess hvernig þessi dóm­stóll er sam­an sett­ur og ég hef nátt­úru­lega haldið því fram að þetta er auðvitað ekki eig­in­leg­ur dóm­stóll, í þeim skiln­ingi að dóm­ar­arn­ir sjálf­ir semja ekki dóm­ana.“

Sam­ræm­ist ekki regl­um um rétt­láta málsmeðferð

Þá komi það spánskt fyr­ir sjón­ir, og sam­ræm­ist ekki regl­um um rétt­láta málsmeðferð, að sami dóm­ari sitji í áfrýjuðu máli, og á Sig­ríður þar við ís­lenska dóm­ar­ann Ró­bert Spanó, sem dæmdi einnig í mál­inu fyr­ir und­ir­rétt­in­um. Sig­ríður seg­ir aug­ljóst að hann hafi sína niður­stöðu að verja í þessu máli.

„Því miður þá hef ég haft það á til­finn­ing­unni allt frá upp­hafi að þetta sé póli­tískt at. Þess vegna hef ég því miður ekki mikla trú á að þarna fari fram mál­efna­leg umræða, til dæm­is um þær rétt­ar­regl­ur sem gilda á Íslandi, og að menn muni ekki virða þá ná­lægðarreglu sem Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn sjálf­ur geng­ur út frá, sem geng­ur út á það að það sé í hönd­um inn­lendra dóm­stóla að túlka inn­lend­ar rétt­ar­regl­ur.“

„Ég myndi fagna því auðvitað mjög [að niður­stöðunni yrði snúið] og held það væri dóm­stóln­um til sóma að kom­ast að ann­arri niður­stöðu en und­ir­rétt­ur­inn. Það gæti kannski orðið til þess að styrkja trú ein­hverra á þess­ari starf­semi þarna fer fram í Strass­borg.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert