„Óstarfhæft sjúkrahús fyrir bráðveika“

„Við erum með óstarfhæft sjúkrahús þegar kemur að því að sinna bráðveiku, og þá sérstaklega bráðveiku öldruðu fólki,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson, formaður prófessoraráðs Landspítala, í viðtali við Læknablaðið. Ítarlega er fjallað um málefni Landspítalans í Læknablaðinu sem kom út í dag. 

Inntur eftir nánari útskýringum bendir hann á að frá því í haust hafi um 30 sjúklingar að jafnaði legið fastir á bráðamóttökunni. Þennan föstudag, 17. janúar, hafi tveir sjúklingar verið útskrifaðir af lyflækningasviði.

„Það hefði þurft að útskrifa 35. Af deildinni minni þar sem útskrifa á 5 á dag fer enginn.“ Það sé einkar slæmt fyrir helgi þar sem starfsemin sé minni en á virkum dögum.

Læknablaðið ræddi við Björn Rúnar, starfsbróður hans, Ragnar Freyr Ingvarsson og Maríu I. Gunnbjörnsdóttur, formann Félags sjúkrahúslækna í kjölfar fundar heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur með læknaráði Landspítala.

Björn Rúnar segir að með orðum sínum hafi ráðherra staðfest þann stjórnunarstíl sem viðgangist á spítalanum. „En það verður samt að segja henni til hróss að hún kom í pontu eftir að við Ragnar mótmæltum orðum hennar og dró þau að sumu leyti til baka.“ Hún hafi sannarlega viljað opna umræðuna. Spurður frekar um stjórnunarstílinn á spítalanum segir hann:

„Þegar fjármagnið er af skornum skammti grípa stjórnendur til örþrifaráða. Þeir eru með bakið upp við vegg og bregðast við sem sært ljón, það bítur frá sér,“ segir hann

„Ályktanir lækna í fjölmiðlum eru ákall til stjórnvalda um að hlustað sé á okkur. Við erum að benda á að heilbrigðiskerfið stefnir víða í óefni. Það þarf að grípa í taumana,“ segir María I. Gunnbjörnsdóttir, formaður Félags sjúkrahúslækna, í viðtali við Læknablaðið.

„Ráðherra verður að þola gagnrýni á málaflokkinn sem hún ber ábyrgð á,“ segir María. Félagið sendi frá sér harðorða ályktun í aðdraganda fundar heilbrigðisráðherra með læknaráði Landspítala 13. janúar sem varð tilefni ummæla ráðherra um að erfitt væri að standa með spítalanum vegna ályktana lækna á „færibandi“ um bágborið ástand þar.

„Yfirlýsing félagsins var harðorð en á sama tíma viljum við að hlustað sé á okkur og að við séum hluti af lausninni. Okkur langar að hafa áhrif á málaflokkinn og teljum það mikilvægt.“ Hún sé ekki talsmaður þess að vera með orðaskak í fjölmiðlum.

„Okkur ber að hafa þann þroska að hafa augun á boltanum og sleppa því að rífast, en við þurfum að tala saman og ef þessi fundur læknaráðs og stóru orð verða til þess að eitthvað gerist í málinu þá var hann til góðs.“

Hún segir hitann skýrast af því að læknar séu langþreyttir á úrræðaleysinu og vaxandi vanda. „Það þreytir lækna að sjá ekki til lands. Róðurinn þyngist og þyngist. Við verðum að sjá skýra tímasetta aðgerðaáætlun,“ segir María sem vonast eftir slíkri sem fyrst eftir þessa miklu fjölmiðlahrinu. „Óbreytt ástand er óviðunandi.“

Frétt Læknablaðsins

Læknar segja mikilvægt að stíga fram og tjá sig um stöðu heilbrigðiskerfisins. Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í lyf- og gigtlækningum á Landspítala, segir umvandanir ráðherra á fundi læknaráðs Landspítala sérlega alvarlegar sé litið til bankahrunsins.

„Það er svo skammt frá hruni og í kjölfar þess var þögn talin einn af orsakavöldum þess hversu illa fór. Það hefði kannski bægt frá meira tjóni en ella hefði fólk tjáð sig,“ segir Ragnar Freyr.

Upptaka af fundinum fór víða í fjölmiðlum vegna orða ráðherra um að erfitt væri að standa með spítalanum þar sem læknar ályktuðu á „færibandi“ um slæmt ástand hans. Þeir Ragnar og Björn Rúnar Lúðvíksson, formaður prófessoraráðs Landspítala, stigu fram á fundinum og gagnrýndu þessi orð. 

Neyðarástand með hástöfum

„Það er háalvarlegt mál að við skulum ekki hafa lært meira af hruninu en þetta,“ segir Ragnar. „Ég tala nú ekki um að vinstri stjórnmálamaður biðji fólk um að þegja um grafalvarlegt ástand.“ Það hafi ekki verið að ástæðulausu að ályktanirnar komu á færibandi.

„Mann grípur skelfing að hugsa til þess að fyrir einu og hálfu ári sögðum við að það væri neyðarástand. Ekkert var gert. Neyðarástandið verður því alltaf meira. Fyrst neyðarástand með litlum stöfum, svo Neyðarástand með stóru N-i og nú NEYÐARÁSTAND í hástöfum. Hvað veljum við næst; últra-NEYÐARÁSTAND?“

Einkunnaspjaldið eða eldurinn?

Björn segir að hann telji að ráðherra hafi ekki áttað sig á því hve alvarlegt ástandið hafi verið í langan tíma. „Við höfum horft á hvernig hefur molnað undan starfsemi spítalans mjög lengi. Þetta svakalega högg og niðurskurður sem verður við hrunið, um og yfir 20%, hefur aldrei verið bætt. Á sama tíma hafa verkefnin margfaldast.“

Björn bendir á að læknar hafi á þessum sama rúma áratug séð gríðarlegar framfarir í læknisfræði. „Hátækni. Við meðhöndlum sjúkdóma sem við gátum ekki fyrir áratug síðan. Við erum betri í að meðhöndla alvarlega veikt fólk og koma því til heilsu sem við gátum ekki fyrir áratug síðan. Þetta kostar gríðarlegt fjármagn.“

Ragnar nefnir margt sem vel hafi verið gert undir stjórn ráðherra, eins og að byggja hjúkrunarrými, koma til móts við fíkla og fanga. „En ímyndaðu þér að litla barnið þitt kæmi gangandi með einkunnaspjaldið úr skólanum. Það hefði fengið 10 í öllu en þú sérð að það er kviknað í hárinu á barninu. Hvað er fyrst á dagskrá þann daginn? Einkunnaspjaldið eða eldurinn?“ spyr hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert