Vetrarhátíð var sett í kvöld við Hallgrímskirkju með listaverkinu Sálumessu jöklanna eftir Heimi Hlöðversson. Fjölmennt var við setninguna og var tilkomumikið að sjá þegar kirkjan umbreyttist í listaverk.
„Jöklar heimsins eru að bráðna á ógnarhraða og ef svo heldur fram sem horfir munu allir jöklar á Íslandi vera nánast horfnir eftir 200 ár. Sálumessa jöklanna er óður til þeirra. Atriðið er sjón- og hljóðræn upplifunarsinfónía sem er hugsuð sem vörpun á Hallgrímskirkju.“ Þetta segir í tilkynningu.
Í beinu framhaldi af setningunni er opnun í Ásmundarsal með hliðarverki Sálumessu jöklanna.