Stjórnmálin eru svolítið eins og púsluspil, sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður VG og umhverfisráðherra, þar sem hann setti flokksráðsfund flokksins í Félagsheimili Seltjarnarness nú síðdegis.
„Stjórnmálahreyfingar móta sér stefnu og framtíðarsýn um samfélagið – kannski þá mynd sem er á púsluspilinu, utan á kassanum. Það er svo hvernig við setjum kubbana saman sem ákvarðar hvaða mynd við endum með og þar höfum við öll áhrif. Hver og einn kubbur og ekki síður samsetning þeirra skiptir máli. Að vera í ríkisstjórn eða í meirihluta í sveitarstjórn þýðir að stjórnmálahreyfingar hafa meiri áhrif á þá mynd sem verður á endanum teiknuð upp með púsluspilinu,“ sagði Guðmundur.
Hann sagði flokkinn ekki fátækan af stefnumálum og að framtíðarsýnin byggðist meðal annars á umhverfis- og náttúruvernd, jöfnuði, jafnrétti og réttlæti og friði.
„Þegar litið er til stjórnmálanna á alþjóðavísu veldur afneitun stjórnmálaleiðtoga og hreyfinga víða um heim á loftslagsvísindum mér þungum áhyggjum. Falsfréttir verða æ algengari og uppgangur fasisma og ógeðfelldra viðhorfa í garð hinsegin fólks eru stór viðfangsefni sem síður en svo tilheyra fortíðinni,“ sagði Guðmundur.
Hann bætti því við að víða væri vegið að sjálfsákvörðunarrétti kvenna og útlendingahatur væri áhyggjuefni. Þessu yrði að sporna gegn með manngæsku, ást og frið að leiðarljósi.
„Hún er lífseig mýtan um að vinstra fólk hafi ekki vit á efnahagsmálum og eigi þar af leiðandi ekki að fara með stjórn þeirra. En hinkrum nú aðeins við. Ekki voru vinstri flokkar við stýrið í aðdraganda hrunsins,“ sagði Guðmundur sem fór stuttlega yfir efnahagsmál, heilbrigðismál og umhverfismál.
Hann benti á að núna væri VG í ríkisstjórn og þá væri mjúk lending í niðursveiflu í hagkerfinu. Einnig væri verið að búa til réttlátara skattkerfi en loforð ríkisstjórnarflokkanna í stjórnarsáttmála um lækkun tekjuskatts hefði þannig skilað sér mest til þeirra sem minnst hefðu.
„Ég hef dáðst að þeim verkum sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur unnið að á síðustu tveimur árum,“ sagði Guðmundur. Áhersla væri lögð á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað, bætt aðgengi allra landsmanna að grunnþjónustu og stóraukin áhersla á geðheilsu.
Guðmundur tók svo dæmi af jákvæðum fréttum af umhverfismálum; fjölda nýskráðra hreinna rafbíla, plastpokabannið og friðlýsingu á hluta Þjórsárdals og sagði fréttirnar og fleiri til hluta af púslkubbum stærri myndar.
„Þeirri framtíðarmynd að árið 2030 ætlum við geta sagt að við höfum staðið við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu, að árið 2040 verði Ísland orðið kolefnishlutlaust og árið 2050 muni losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi verða mjög lítil og við munum binda meira kolefni en við losum,“ sagði Guðmundur og hlaut lófaklapp fyrir vikið.
Ráðherra sagði að fyrirhugaður hálendisþjóðgarður hefði hlotið mikla umfjöllun sem væri verðskuldað þegar til stæði að taka jafn stóra ákvörðun og þessa.
Guðmundur útskýrði að þverpólitísk nefnd hefði skilað skýrslu til hans í byrjun desember og mikið samráð hefði átt sér stað um málið, ekki síst við sveitarstjórnir.
„Oft er kvartað yfir því að hlutirnir taki alltof langan tíma í stjórnsýslunni, en í þessu máli hef ég orðið var við að fólki finnist alltof hratt farið. Já, öðruvísi mér áður brá! Allt tal um að of hratt sé farið er einfaldlega ekki rétt, málið er mjög vel unnið enda stjórnvöld unnið ötullega að þessu máli í bráðum fjögur ár,“ sagði ráðherra.
Hann sagði kjarna málsins þann að hér gætu Íslendingar ákveðið á grundvelli lagafrumvarps að vernda stærstu víðerni landsins, magnaðar jarðminjar, fágætar gróðurvinjar og ómetanlegt landslag.
Hann vísaði því á bug að VG næði ekki nógu mörgum málum sínum fram í ríkisstjórnarsamstarfi. Hann sagði mikilvægt að flokksfólk þyrfti að vera duglegt að ræða málefni flokksins út í samfélaginu, á kaffistofunum, í sundi og fleiri stöðum svo fátt eitt væri nefnt.
„Við skulum halda áfram að púsla okkar púsluspil, kubb fyrir kubb en til þess þurfum við allar hendur á dekk,“ sagði Guðmundur.