Staðan í kjaraviðræðum Reykjavíkurborgar við Eflingu er ekki bara þröng og erfið heldur einnig óvænt. Hluti vandans er forystuleysi þar sem enginn sé að útskýra hvað felist í lífskjarasamningunum. Þetta kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í Silfrinu á RÚV.
„Ég hef miklar áhyggjur af stöðunni. Ef við hefðum verið að tala saman fyrir 9 mánuðum síðan þá bjóst ég við því að við næðum að klára ýmsa kjarasamninga fyrir sumarleyfi því mikilvægar línur voru lagðar með lífskjarasamningunum,“ sagði Dagur og hélt áfram:
„En það hefur ótrúlega langur tími farið í útfærslu á styttingu vinnuvikunnar sem er risastórt mál og hefur reynst býsna flókið. Ég hef verið mjög óþolinmóður að ná niðurstöðum í kjarasamningum. Hluti vandans er ákveðið forystuleysi því það er enginn að útskýra hvað verkalýðshreyfingin, vinnuveitendur og ríkisstjórnin var að gera síðasta vor, hvað það felur í sér og hver hugsunin með því er. Það eru fáir sem útskýra lífskjarasamningana og hvað í þeim felst.“
Dagur var spurður að því hvort kröfur Eflingar væru umfram lífkjarasamningana þannig að borgin gæti ekki samþykkt þær kröfur og Dagur sagði það liggja ljóst fyrir. Lífskjarasamningarnir hefðu fyrst og fremst gengið út á að kjarabætur færu til þeirra með lægstu laun í krónum talið. Síðan hafi átt að styrkja stöðu þeirra og ungs fólks sérstaklega með öðrum aðgerðum eins og barnabótum, skattamálum og lausnum í húsnæðismálum.
„Klemman hjá borginni er sú að ef við gengjum að kröfum Eflingar eins og þær eru settar fram núna þá erum við ekki bara að hækka laun í samræmi við lífskjarasamningana heldur til viðbótar þannig að þeir sem áttu að bíða eða fá minni bætur, þeir sem eru með hærri laun og háskólamenntaðir, væru orðnir ansi nálægt ófaglærðum í kjörum og við vitum að það væri aldrei samþykkt af öðrum viðsemjendum.“
Dagur tók það hins vegar fram að það félli honum í geð að hækka lægstu laun samkvæmt lífskjarasamningunum. Þáttastjórnandinn Egill Helgason spurði hvort væri ekki hægt að gera betur en það.
„Ég sé fram á það að ef ég myndi fara að ýtrustu kröfum þá væru launin komin ansi nálægt launum háskólamenntaðra og það yrði aldrei friður um það. Það verður að vera ákveðið launabil. Það er rík krafa um að meta menntun til launa. Þetta er klemman sem við erum í,“ svaraði Dagur.
Hann bætti því við að hann gæti ekki leyft sér að hugsa samninga einungis út frá einum hópi heldur væri Reykjavíkurborg að semja við fjölda annarra stéttarfélaga á næstu vikum og breytingar sem gerðar eru á launum eins hóps hafi áhrif á aðra samninga og geti haft áhrif á allan vinnumarkaðinn.
Þá tók hann fram að ekki væri hægt að skrifa undir kjarasamninga fyrr en búið væri að útfæra styttingu vinnuvikunnar og það væri verið að vinna hörðum höndum að því.
„Ég vona að það komist gangur í það í vikunni sem er fram undan og beini því til allra viðsemjenda að það þurfi að ná lendingu,“ bætti hann við áður en skipt var um umræðuefni.