Fundi samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar í kjaradeilu félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg, sem átti að hefjast klukkan tvö í dag, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Vísir greindi fyrst frá.
„Það var mat sáttasemjara sem er með málið að það myndi ekki skila miklum árangri að halda fundinn í dag. Það þyrfti aðeins að undirbúa þetta betur,“ segir Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, í samtali við mbl.is. Næsti fundur hefur ekki verið tímasettur.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir samninganefnd Eflingar vera sátta við frestun fundar. „Þetta er í góðu lagi okkar vegna, ekkert stress.“
Hann segir samninganefnd þeirra treysta mati ríkissáttasemjara. „Hann er í samskiptum við báða deiluaðila. Þetta er hans ákvörðun og hans mat.“
Verkfallsaðgerðir munu því halda áfram á morgun, þriðjudag, en vinna verður lögð niður klukkan 12:30.
Dagskrá fyrirhugaðra vinnustöðvana má sjá hér að neðan:
Þriðjudagur 11. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 12.30 og fram til klukkan 23.59.
Miðvikudagur 12. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukkan 23.59.
Fimmtudagur 13. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og fram til klukkan 23.59.
Mánudagur 17. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá kl. 00.01 og ótímabundið eftir það.