Hættumat fyrir Reynisfjöru klárt á næstu mánuðum

Unnið er að hættumati í Reynisfjöru. Algengt er að ferðamenn …
Unnið er að hættumati í Reynisfjöru. Algengt er að ferðamenn vari sig ekki á hættunni þrátt fyrir skilti sem ítreka hættuna á svæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlað er að vinnu við hættumat í Reynisfjöru, einum eftirsóttasta ferðamannastað landsins, ljúki í mars. Vinna við það hófst í lok síðasta árs en óveður og hamfarir síðustu mánaða, snjóflóð á Flateyri, vegalokanir, ófærð og fleira hefur tafið vinnuna við hættumatið, að sögn Björns Inga Jónssonar, verkefnastjóra almannavarna hjá lögreglunni á Suðurlandi. 

Um helgina bjargaði leiðsögumaður tveimur börnum úr sjónum í Reynisfjöru sem voru hætt komin. Litlu mátti muna að þau hefðu sogast út með kraftmiklum öldum. Björn Ingi segir að mildi þykir að ekki fór verr. „Það er full ástæða til að ná samtalinu um hættuna í Reynisfjöru og að sátt náist um að gripið sé inn í ákveðnar aðstæður,“ segir hann og tekur fram að enginn vilji sjá fleiri dauðsföll þarna. 

Björn Ingi segir að í framhaldi af atburðunum, sem áttu sér stað á síðasta ári þegar nokkrir einstaklingar fóru í sjóinn við Reynisfjöru, hafi lögreglan á Suðurlandi ákveðið í samvinnu við ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­arráðuneyti að vinna hættumat fyrir svæðið til að taka á þessum aðstæðum. Lög­regl­an á Suður­landi hef­ur for­ystu um verk­efnið í sam­vinnu við Vega­gerðina, Veður­stofu Íslands og al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra.

Hættumatið er unnið á vísindalegan hátt þar sem tekið er tillit til veðurs, ölduhæðar o.fl. Þar sem talið er líklegra að slíkir atburðir gætu átt sér stað í ljósi aðstæðna. „Þetta er samstarfsverkefni nokkurra stofnana og janúarmánuður hefur verið mjög krefjandi,“ segir Björn Ingi og vísar til þess að margir sérfræðingar sem vinna hættumatið hafi haft í nægu að snúast. Þeir eru til dæmis sérfræðingar í snjóflóðum og ofanflóðavörnum. „Við ætluðum að vera búin að þessu í febrúar en að öllum líkindum verður það ekki fyrr en jafnvel í byrjun mars,“ segir hann. 

Í lok febrúar verður efnt til íbúafundar í Vík í Mýrdal þar sem rætt verður meðal annars um vinnuna við hættumatið. Eignarhald á svæðinu við Reynisfjöru er flókið en að minnsta kosti rúmlega 90 eigendur eru að svæðinu sem um ræðir. „Það er mikilvægt að við eigum þetta samtal við landeigendur,“ segir hann. 

Brýnt að eiga samtal við landeigendur og íbúa

Samkvæmt lögum þarf leyfi allra landeigenda fyrir nýtingu eða breytingum á svæðinu. Hins vegar hefur lögreglan heimild út frá grunni almannavarna til að loka ákveðnum svæðum. „Við erum aðeins að undirbyggja það í þessari vinnu,“ segir Björn. Til greina gæti komið að loka í einhverja daga út frá hættumatinu. Hann ítrekar að fyrst eigi eftir að ræða þetta við landeigendur, rekstraraðila og íbúa á svæðinu. 

„Stundum virðir fólk ekki boð og bönn. Við þekkjum það frá fleiri stöðum þar sem girðingar hafa verið settar upp og það dugar ekki til að fólk virði þær lokanir,“ segir Björn Ingi. Í Reynisfjöru eru vissulega skilti sem vara fólk við hættulegum öldugangi og mögulegu grjóthruni. 

Erlendir ferðamenn leika gjarnan hættulegan leik í fjörunni.
Erlendir ferðamenn leika gjarnan hættulegan leik í fjörunni. mbl.is/Ómar

Til skoðunar er einnig að setja upp ljósaskilti sem vekti athygli fólks á aðstæðum þegar ákveðin ölduhæð eða veðurskilyrði eru varasöm. Einn möguleiki væri að setja upp palla á svæðinu sem hægt væri að nýta í slæmu veðri. Björn Ingi ítrekar að hugmyndirnar séu margar og að þær séu allar á umræðustigi. Mestu máli skiptir að halda áfram með hættumatið og eiga gott samtal við landeigendur, íbúa á svæðinu og rekstraraðila. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert