Hallur Már -
„Það gæti alveg eins komið fljótlega til átaka ef að ekkert rætist í okkar málum,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, en Um 350 starfsmenn Rio Tinto og undirverktaka eru félagsmenn og hafa verið með lausa kjarasamninga lengi. Hann vill að Landsvirkjun komi til móts við álverið í samningum.
mbl.is ræddi við Kolbein í ljósi alvarlegrar stöðu fyrirtækisins og viðtalið má sjá í myndskeiðinu.
Hann hefur ekki trú á því að fréttir morgunsins séu útspil í kjaraviðræðunum þar sem launakostnaður sé of lítill í rekstri fyrirtækisins. Hinsvegar hafi samningur sem er í takt við Lífskjarasamninginn legið á borðinu um tíma og það eina sem vanti er undirskrift af hálfu Rio Tinto. „Það er nauðsynlegt að þeir geri það til að skapa meiri ró á svæðinu,“ segir Kolbeinn.
Deginum ljósara sé að reksturinn sé þungur og því finnst honum eðlilegt að Landsvirkjun komi til móts við álverið á meðan heimsmarkaðsverð áls sé enn lágt. „Áður fyrr tók raforkuverð mið af álvirði en það datt út úr síðustu samningum við Landsvirkjun svo það er kannski það sem vantar í spilið að hafa tengingu þar við,“ segir Kolbeinn í samtali við mbl.is.