Grafalvarlegt mál

„Þetta er alvarlegt mál og við vonum að viðræðurnar skili …
„Þetta er alvarlegt mál og við vonum að viðræðurnar skili góðri niðurstöðu.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég svo sem get ekki sagt mikið á þessari stundu annað en að við lítum þetta grafalvarlegum augum. Þetta er einn stærsti vinnustaður bæjarins og hefur verið til áratuga.“

Þetta segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, um tíðindin frá Rio Tinto um sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins í Straumsvík.

„Álverið hefur haft gríðarlega mikil áhrif á samfélagið okkar og verið eftirsóttur vinnustaður, sem hefur haft mikil samlegðaráhrif inn í önnur fyrirtæki og aðra starfsemi hér í bænum. Í mínum huga er þetta mjög mikilvægt fyrirtæki og þetta er grafalvarlegt mál sem nú blasir við,“ segir Rósa í samtali við mbl.is.

Boltinn hjá ríkinu

Rósa segir bæjaryfirvöld hafa vitað að reksturinn hafi ekki gengið nógu vel undanfarin ár. Þau hafi þó ekki fengið að vita af því að reksturinn væri kominn á þennan stað fyrr en í morgun. 

„Við erum nýlega búin að eiga mjög góðan fund með þeim um stöðu fyrirtækisins, sem tengdist líka skipulagsmálum og Reykjanesbrautinni. Við eigum reglulega fundi með þeim þar sem þeir setja okkur inn í stöðuna og nýjungarnar sem þeir eru að taka upp og þær breytingar sem hafa verið gerðar í rekstrinum og framleiðslunni. Það hafa verið mjög góð samskipti en nákvæmlega þetta, að þetta væri komið á þennan punkt, fengum við bara að vita í morgun.“

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.

„Við vitum að fyrirtækið hefur verið að bregðast við með ýmsum hætti og leitað ýmissa leiða til að gera það sjálft. Nú er þá bara þetta eftir, raforkuverðið, sem er að hafa þessi áhrif og við fylgjumst með því og vonum það besta. Nú er boltinn hjá ríkinu, það er ljóst.“

Aðspurð hvort bærinn hafi eða muni setja af stað áætlanir til að bregðast við því verði álverinu lokað segir Rósa augljóst að bæjaryfirvöld verði á tánum. „Það er okkar hlutverk. Við munum fylgjast mjög náið með því hvernig þessu samtali við ríkið framvindur á allra næstu vikum og munum auðvitað þurfa að bregðast við ef eitthvað nýtt gerist.“

„Þetta er alvarlegt mál og við vonum að viðræðurnar skili góðri niðurstöðu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert