Rio Tinto meinar undirskrift nýs kjarasamnings

Reinhold segir það mjög góða spurningu að velta upp hvers …
Reinhold segir það mjög góða spurningu að velta upp hvers vegna stjórnendur erlendis vilji ekki að skrifað sé undir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samninganefnd álversins í Straumsvík, ISAL, fær ekki leyfi frá stjórnendum Rio Tinto til þess að skrifa undir kjarasamning við starfsfólk álversins. Þetta segir Reinhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsfólks álversins, í samtali við mbl.is.

Tilkynnt var í morgun að ráðist yrði í sérstaka endurskoðun á starfsemi álversins. 

„Þetta kemur svolítið óvænt þó það hafi legið í loftinu að það væri ekki góður rekstur hérna. Við vissum ekki að þetta væri komið á þennan stað, það er óhætt að segja það,“ segir Reinhold.

Farið var yfir stöðuna með starfsfólki á fundi í morgun og segir Reinhold að fólki sé eðlilega brugðið. „Þetta eru náttúrulega fréttir sem fólk þarf bara aðeins að fá tíma til að melta.“

Fordæmalaust í íslenskri verkalýðssögu

„Þetta er tvöfaldur vandi hjá okkur í dag, þessi rekstrarvandi þeirra og að fá ekki þennan kjarasamning. Við erum með drög að samningi á borðinu, sem á bara eftir að skrifa undir. Hann er búinn að vera tilbúinn síðan í lok janúar,“ útskýrir Reinhold.

„Þeir fá ekki leyfi til að skrifa undir hann. Þeir komu í veg fyrir það, einhverjir æðri stjórnendur erlendis, sem er fordæmalaust í íslenskri verkalýðssögu. Það liggja fyrir fullbúin drög, sem allir eru ánægðir með innanlands.“

Reinhold segir það mjög góða spurningu að velta upp hvers vegna stjórnendur erlendis vilji ekki að skrifað sé undir. „Við höfum allskonar kenningar um það. Nú þurfum við aðeins að anda með nefinu og fara yfir þessa nýju stöðu sem er komin upp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert