Þrýstimunur milli óveðurslægðar, sem dýpkar ört og nálgast landið, og hæðar sem er skammt norður af Scoresbysundi veldur þeim aftakavindi sem í vændum er. Viðvarnir taka þegar gildi í nótt og er jafnvel búist við fárviðri á suðurhelmingi landsins.
Það var kalt á landinu í nótt og mesta frostið mældist 23,5 stig við Mývatn og 22,9 stig á Grímsstöðum á Fjöllum.
Strekkingsvindur á eftir að virðast sem logn
„Þegar þetta er skrifað er óveðurslægðin stödd 850 km austur af Nýfundnalandi. Þrýstingur í miðju hennar er nú áætlaður 952 hPa. Lægðin dýpkar ört og nálgast landið. Skammt norður af Scoresbysundi er 1.014 mb hæð og spár gera ráð fyrir að hæðin standi kyrr þótt lægðin nálgist. Í grófum dráttum má segja að það sé þrýstimunurinn milli þessara tveggja veðrakerfa sem veldur þeim aftakavindi sem í vændum er.
Það bætir smám saman í vind í dag og í kvöld má búast við austan 10-23 m/s, hvassast syðst á landinu og snjókoma þar. Þá verður frost á bilinu 1 til 7 stig. Norðaustanlands verður hægur vindur í allan dag og kaldara.
Í nótt hvessir mikið og snemma í fyrramálið má víða búast við austanroki eða ofsaveðri, en jafnvel fárviðri í vindstrengjum á suðurhelmingi landsins. Víða er útlit fyrir slyddu eða snjókomu og verður úrkoman mest á sunnan- og austanverðu landinu.
Síðdegis á morgun snýst í sunnanhvassviðri sunnan til á landinu með rigningu á láglendi þar sem hefur hlýnað vel upp fyrir frostmark. Þá verður hins vegar áfram austanrok og ofankoma um landið norðanvert með hita nálægt frostmarki.
Annað kvöld batnar veður hins vegar svo um munar á öllu landinu þegar vind lægir og dregur úr úrkomu. Undir miðnætti er útlit fyrir strekkingsvind um mestallt land sem væntanlega á eftir að virðast sem logn eftir það sem á undan er gengið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að það hvessi strax í kvöld sunnanlands með skafrenningi og hríðarmuggu í Mýrdal. „Versnar mjög í nótt. Fyrst og síðast varasamur vindur snemma í fyrramálið, sums staðar af fáviðrisstyrk (32 m/s) sunnan til. Skafrenningur og lítið skyggni norðan til og stórhríð suðaustan- og síðar austanlands,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni en þessu var bætt við fréttina klukkan 9:42.
Á höfuðborgarsvæðinu verður gul viðvörun í gangi frá klukkan 2 í nótt þangað til fimm í fyrramálið en þá tekur við appelsínugul viðvörun sem verður í gildi til klukkan 16. „Austan 15-28 m/s, hvassast við ströndina og efri byggðum. Samgöngutruflanir eru líklegar á meðan veðrið gengur yfir og truflanir á flugsamgöngum. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdasvæðum. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geti laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni.“
Á Suðurlandi er gul viðvörun í gildi frá klukkan 22 í kvöld til 1 í nótt en þá tekur við appelsínugul viðvörun sem gildir til klukkan 15. „Austanrok eða ofsaveður, 25-33 m/s. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 50 m/s, einkum undir Eyjafjöllum, við Ingólfsfjall og á heiðum. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar. Einnig má búast við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni. Eftir það er gul viðvörun aftur og gildir hún til klukkan 6 að morgni laugardags. Suðaustanhvassviðri, éljagangur og skafrenningur. Lélegt skyggni og afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar.“
Við Faxaflóa er gul viðvörun í gildi í nótt en síðan er appelsínugul viðvörun frá klukkan 5 til klukkan 21. „Austan rok eða ofsaveður, 25-33 m/s. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 50 m/s. Veðrið gengur fyrst inn á sunnanvert svæðið, Reykjanes og höfuðborgarsvæðið en versnar mikið í Borgarfirði, á Mýrum og sunnanverðu Snæfellsnesi fyrir hádegi. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar. Einnig má búast við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni. Dregur úr vindi sunnan til á svæðinu upp úr kl. 17 en mjög hvasst, einkum á sunnanverðu Snæfellsnesi fram á kvöld.“
Við Breiðafjörð er appelsínugul viðvörun frá klukkan 8 í fyrramálið og gildir hún til klukkan 4 aðfaranótt laugardags. „Norðaustanstormur eða -rok með vindhraða á bilinu 20-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s, einkum á norðanverðu Snæfellsnesi, í Dölunum og á Barðaströnd. Einnig er spáð talsverðrum éljagangi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Talsverður áhlaðandi, hækkuð sjávarstaða og mikil ölduhæð fylgir veðrinu.“
Á Vestfjörðum gildir appelsínugul viðvörun frá klukkan 6 í fyrramálið og gildir hún í sólarhring. „Norðaustanstórhríð, 20-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Einnig er spáð mikilli snjókomu eða éljagangi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Talsverður áhlaðandi, hækkuð sjávarstaða og mikil ölduhæð fylgir veðrinu.“
Sömu sögu er að segja af Ströndum og Norðurlandi vestra en þar er appelsínugult ástand frá klukkan 6 í fyrramálið til klukkan 4 aðfaranótt laugardags. „Austanstormur eða -rok með vindhraða á bilinu 20-30 m/s., hvassast á fjallvegum. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Einnig er spáð talsverðum éljagangi á annesjum og heiðum með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“
Á Norðurlandi eystra er appelsínugult ástand frá klukkan 10 í fyrramálið þangað til klukkan 22 annað kvöld. „Stormur eða rok með vindhraða á bilinu 18-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Einnig er spáð talsverðri snjókomu en mikilli á Tröllaskaga með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“
Á Austurlandi að Glettingi skellur óveðrið heldur seinna á en þar er appelsínugult ástand frá klukkan 11 á morgun til 17 en þá tekur við gul viðvörun til klukkan 2 aðfaranótt laugardags. „Austanstormur eða rok með vindhraða á bilinu 20-28 m/s. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Einnig er spáð talsverðri eða mikilli snjókomu með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“
Á Austfjörðum er spáð austanstórhríð og er appelsínugul viðvörun í gildi frá klukkan 6 í fyrramálið þangað til 23 annað kvöld. „Austan 20-28 m/s. Einnig er spáð talsverðri eða mikilli snjókomu með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Talsverður áhlaðandi fylgir veðrinu. Líkur eru á að hláni í stutta stund á láglendi seint um daginn en kólni aftur um kvöldið.“
Á Suðausturlandi er gul viðvörun frá klukkan 2 í nótt til klukkan 5 er appelsínugul viðvörun tekur við og gildir til klukkan 16. Eftir það er gul viðvörun til miðnættis. „Austanrok eða -fárviðri, 25-33 m/s. Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 50 m/s, við Mýrdalsjökul og í Öræfum. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar. Einnig má búast við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni.“
Á miðhálendinu er spáð austanofsaveðri eða -fárviðri frá klukkan 3 í nótt þangað til 22 annað kvöld. Appelsínugult ástand. „Rok eða ofsaveður með vindhraða á bilinu 25-35 m/s. Búast má við mjög hvössum og hættulegum vindhviðum við fjöll, 40-45 m/s. Hættulegar aðstæður fyrir ferðamenn og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“
Hægt vaxandi austanátt í dag og skýjað með köflum, 10-23 m/s í kvöld, hvassast syðst á landinu og snjókoma þar. Frost 1 til 7 stig. Hægari vindur og kaldara norðaustanlands. Hvessir meira í nótt, snemma í fyrramálið má víða búast við austanroki eða ofsaveðri, en fárviðri í vindstrengjum á suðurhelmingi landsins. Víða slydda eða snjókoma, úrkomumest sunnan- og austanlands. Snýst í sunnan hvassviðri sunnan til landinu síðdegis á morgun með rigningu á láglendi og hita 1 til 5 stig, en þá áfram rok og ofankoma um landið norðanvert. Lægir talsvert á landinu annað kvöld og dregur úr úrkomu.
Á föstudag: Austanátt, víða rok eða ofsaveður, en fárviðri í vindstrengjum á sunnanverðu landinu fyrir hádegi. Víða slydda eða snjókoma, úrkomumest sunnan- og austanlands. Hlýnandi veður, rigning á láglendi um landið sunnanvert og við austurströndina undir kvöld með hita 1 til 5 stig, en vægt frost fyrir norðan. Dregur talsvert úr vindi um kvöldið, en áfram stórhríð norðvestan til á landinu.
Á laugardag: Gengur í austan- og norðaustanhvassviðri eða -storm með rigningu eða slyddu, en snjókomu inn til landsins, úrkomumest austanlands. Hiti 0 til 6 stig.
Á sunnudag: Norðaustan 5-13 og dálítil rigning eða slydda austan til á landinu, annars úrkomulítið. Norðan 10-18 um kvöldið með snjókomu norðanlands. Kólnar heldur í veðri.
Á mánudag: Norðanátt og él, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Víða vægt frost.
Á þriðjudag: Fremur hæg suðlæg átt með éljum, en léttir til á Norður- og Austurlandi. Frost 0 til 8 stig, kaldast norðaustan til.
Á miðvikudag: Vaxandi suðaustanátt með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands, en þurrt og kalt fyrir norðan og austan.