Hæstiréttur hefur samþykkt umsókn Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í meiðyrðamáli sínu gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni fyrrverandi hæstaréttardómara. Dómur Landsréttar féll í nóvember en þar var Jón Steinar sýknaður.
Í málinu fór Benedikt fram á að ummæli í bók Jón Steinars í ritinu „Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ yrðu dæmd dauð og ómerk. Þá fór dómarinn einnig fram á að fá greiddar tvær milljónir í miskabætur.
Byggði hann málsókn sína á að ummælin „dómsmorð“ væru ærumeiðandi aðdróttanir eins og þau birtust í bókinni og Jón Steinar hefði með þeim fullyrt að Benedikt hefði af ásetningi komist að rangri niðurstöðu í dómsmáli með þeim afleiðingum að saklaus maður hefði verið sakfelldur og dæmdur í fangelsi.
Í júní 2018 sýknaði Héraðsdómur Reykjaness Jón Steinar sem fyrr segir og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu í nóvember.
Í ákvörðun Hæstaréttar um áfrýjunarleyfið, sem mbl.is hefur undir höndum, segir m.a. að Benedikt byggi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars sökum þess að það varði mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs sem séu stjórnarskrávarin réttindi.
Það hafi ennfremur sérstaka þýðingu að ummælin beinist að dómstörfum Benedikts og að Jón Steinar sé fyrrverandi hæstaréttardómari og starfandi lögmaður. Benedikt bendir á að ekki hafi áður reynt á sambærilegt ágreiningsefni fyrir Hæstarétti og að dómur Landsréttar taki ekki nægilega mið af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, en þar hafi staða þess sem lætur ummælin falla verið talin skipta máli og jafnframt að hverjum þau beinast.
Þá telur Benedikt að dómurinn gangi mun lengra en áður þekkist við túlkun á því hvað geti talist vera gildisdómur, auk þess sem ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til allrar málsástæðna hans. Því sé dómurinn bersýnilega rangur að formi og efni til. Ennfremur byggir Benedikt á því að málið varði jafnframt sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína endi verði dómari ekki sakaður um alvarlegri glæp í starfi sínu en að misfara með vald sitt með því að dæma saklausan mann í fangelsi gegn betri vitund.
Loks telur Benedikt að málsmeðferðin fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant vegna nánar tilgreindra bréfaskipta og símtala Jóns Steinars við forseta Landsréttar, dómsformann málsins og skrifstofustjóra réttarins um skipun dómsins, sem hann hafi ekki verið upplýstur um. Jafnræðis hafi því ekki verið gætt með aðilum við málsmeðferðina og brotið gegn lögum um dómstóla um að tilviljun ráði hvaða dómari fái mál til meðferðar.
„Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um álitefni varðandi frelsi lögmanna, og annarra sérfróðra aðila sem gegna ábyrgðarhlutverki innan réttarvörslukerfisins, til að tjá sig opinberlega um embættisverk dómara. Því getur úrlausn málsins að þessu leyti haft verulegt almennt gildi umfram úrlausnir sem áður hafa gengið. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina, “ segir í ákvörðun Hæstaréttar.