„Hættum nú að tala þetta niður“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og ný­sköp­un­ar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og ný­sköp­un­ar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og ný­sköp­un­ar segir að fólk eigi að hætta að tala álverið í Straumsvík niður. Hún gagnrýnir færslu Bjartar Ólafsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra vegna mögulegrar lokunar álversins í Straumsvík.

Björt segir endalausa möguleika á annarri starfsemi á þessum stað, í staðinn fyrir álverið, og nefnir til dæmis „risa gróðurhús“ og fiskeldi. Auk þess telur Björt að slík starfsemi komi okkur Íslendingum út úr kolefnislosunar skammar­krókn­um sem meng­andi stóriðjur hafa komið okk­ur í.

Í fyrsta lagi kemur „risa gróðurhús“ ekki á nokkurn hátt í staðinn fyrir álver hvað varðar raforkunotkun. Öll gróðurhús á Íslandi nota um 80 GWh á ári samanlagt. Það er vissulega umtalsvert en ISAL notar um 3.300 GWh eða fjörutíu sinnum meira. Jafnvel þótt „risa gróðurhúsið“ yrði samfelld bygging meðfram Reykjanesbrautinni alla leið út í Leifsstöð næði það ekki ISAL í raforkunotkun,“ skrifar Þórdís Kolbrún.

Hún segir að það sé mjög ósanngjarnt að tala um að stóriðjan setji okkur í skammarkrók hvað varði kolefnislosun.

Með því að nýta sjálfbæra orku Íslands til að knýja dálítinn hluta af verksmiðjum heimsins erum við þvert á móti að hlífa andrúmsloftinu við stórfelldri losun á gróðurhúsalofttegundum. Við megum með réttu vera stolt af þessu framlagi okkar. Já, við tökum vissulega á okkur töluverða losun – meira að segja mjög mikla samkvæmt höfðatölu – en með því sparast gríðarleg losun sem annars myndi verða,“ skrifar Þórdís Kolbrún.

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra.
Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

Hún segir að það sé fráleitt að halda því fram að við séum í einhverjum skammarkrók. Losunin væri margfalt meiri ef starfsemin væri knúin þeim orkugjöfum sem eru algengastir annars staðar í heiminum.

Það er síðan allt önnur umræða að skoða breytingarnar framundan, á raforkumarkaði, fjölbreyttari orkukaupendum, aukinni matvælaframleiðslu á Íslandi sem ég vona að verði o.s.frv o.s.frv.,“ skrifar Þórdís Kolbrún og hnykkir út með því að fólk eigi að hætta að tala álverið niður:

Hættum nú að tala þetta niður og opnum augun fyrir jákvæðu framlagi okkar grænu orku til loftslagsmála, sem allir í heiminum virðast kunna að meta nema við sjálf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert