Fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær, 12. febrúar, að afnema sumarlokanir á leikskólum bæjarins. Frá og með sumrinu 2021 verða leikskólar Hafnarfjarðarbæjar því opnir allt sumarið.
Frá þessu er greint hjá Hafnfirðingi, bæjarriti Hafnarfjarðar. Þar segir að í könnun sem gerð hafi verið meðal foreldra leikskólabarna hafi afgerandi hluti foreldra lýst þeim vilja að geta valið í hvaða mánuði barn þeirra tæki sumarfrí, og auka þannig möguleika sína á að vera í fríi á sama tíma og barnið.
Munu foreldrar leikskólabarna í Hafnarfirði nú geta valið hvort barn þeirra fer í sumarfrí í júní, júlí eða ágúst, en taka þarf frí samfleytt í fjórar vikur eins og verið hefur.