Ættu að meta reynslu jafnt og menntun

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Árni Sæberg

„Lausnin hlýtur að vera að meta hæfni og reynslu en ekki bara menntun,“ sagði Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar benti hún á að leikskólakennarar lentu í því að þrátt fyrir að þeir hefðu starfað á leikskólum um árabil áður en þeir næðu sér í viðeigandi menntun fengju þeir reynsluna ekki metna til launa. Sama eigi við ljósmæður sem lækki gjarnan í launum eftir að þær útskrifast úr ljósmóðurfræðum hafi þær starfað sem hjúkrunarfræðingar um tíma áður. 

„Þegar þú ert búinn að ná þér í menntun þá er fyrri reynsla ekki metin,“ sagði Drífa sem telur, eins og áður sagði, mikilvægt að reynsla og hæfni séu þættir sem eru metnir til jafns við menntun. 

„Ég veit að það er ein af kröfum leikskólakennara að meta menntun í faginu til launa.“

Dr. Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur.
Dr. Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur. mbl.is/Eggert

Einokun ríkis og sveitarfélaga

Drífa var gestur í þættinum ásamt Katrínu Ólafsdóttur, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, og Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Ræddu þau þrjú um vægi menntunar þegar kæmi að launum og eðlilegan og óeðlilegan launamun. 

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

Drífa sagði þar að hún efaðist um að fólk menntaði sig almennt til að afla sér hærri tekna. Birgir benti á að framboð og eftirspurn á starfsfólki væri mikilvæg í samhengi við tekjur þess en þvi svaraði Drífa: 

„Ef þau lögmál væru í gildi þá væru laun starfsfólks á leikskólum mun hærri.“

Katrín benti þá á að ríki og sveitarfélög væru í einkeypisstöðu þegar kæmi að starfsfólki skóla- og heilbrigðiskerfisins og því væri staðan erfið fyrir fólk sem hefði einungis hug eða tök á að starfa hjá ríkinu eða sveitarfélögum.

„Einn vinnuveitandi er í raun dálítið eins og einokun. Viðsemjandinn hefur töluvert vald. Sérstaklega ef við erum með stétt sem er með sérmenntun sem nýtist helst hjá þessum eina vinuveitanda.“

Allsherjarverkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hefst á miðnætti. Deiluaðilar hafa ekki fundað síðan 7. febrúar og er enginn fundur áætlaður hjá ríkissáttasemjara. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert