Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur yfirfarið upptökur úr búkmyndavélum þriggja lögreglumanna, auk öryggismyndavélar eins fyrirtækis í Bankastræti vegna rannsóknar á hópslagsmálum í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi. Engar kærur hafa verið lagðar fram.
Karlmaður á þrítugsaldri er líklega kjálkabrotinn, en því hefur verið haldið fram að hann hafi brotnað eftir að lögreglumaður skellti honum í gólfið. Á myndbandsupptöku sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum má sjá hvernig lögreglumaður gengur í átt að manninum áður en upptökunni lýkur skyndilega.
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að eftir að hafa farið yfir fyrrnefndar upptökur sé ljóst að áverkar mannsins hafi komið til áður en lögregla hafði afskipti af manninum. Hann segist ekki geta fullyrt hvort maðurinn hafi slasast í slagsmálunum, en það er möguleg skýring.
Aðspurður segir Ásgeir að ekki sé ólöglegt að taka myndbönd af lögreglumönnum að störfum. Það hafi enda ekki verið ástæða þess að lögregla gekk að manninum og handjárnaði hann. „Maðurinn var hluti af hópi sem var að slást. Þegar lögreglan mætir á staðinn veit hún ekki hvað átti sér stað,“ segir Ásgeir. Því sé vinnuregla að tryggja öryggi allra á vettvangi.
Ásgeir segir að enn einu sinni hafi búkmyndavélar lögreglu sannað gildi sitt. „Það er synd að geta ekki deilt hljóðinu [úr búkmyndavélunum],“ segir Ásgeir. Viðstaddir hafi látið svívirðingum og dónaskap rigna yfir lögreglumenn.
Segir hann mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir að lögreglumenn séu líka fólk sem á fjölskyldu. „Þarna er ungur lögreglumaður tekinn af lífi á samfélagsmiðlum. Það er búið að birta myndir af honum og fyrir hvaða fótboltalið hann spilar.“