Dæmd til að greiða sauðfjárbændum bætur

Bændurnir kröfðust 12,5 milljóna króna í skaðabætur og sögðu að …
Bændurnir kröfðust 12,5 milljóna króna í skaðabætur og sögðu að Matvælastofnun hefði gengið allt of hart fram í málinu.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Matvælastofnun til að greiða tveimur sauðfjárbændum samtals þrjár milljónir króna í miskabætur. Stofnunin hafði haustið 2014 svipt bændurna fé sínu og slátrað því vegna ófullnægjandi aðbúnaðar.

Fram kemur í niðurstöðu dómsins að Matvælastofnun hafi ekki farið að lögum þegar ákveðið var að slátra fénu. Enn fremur kemur fram að niðurskurður bústofns bændanna var þeim augljóslega mikið persónulegt áfall og til þess fallið að valda þeim álitshnekki.

Stofnunin hafði frá vori 2013 haft sérstakt eftirlit með bændunum vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Þar kom meðal annars fram að hús væri opin og ófrágengið og gólf blaut og skítug. Þá voru sumir gripir vanfóðraðir.

Bændunum var gefinn lokafrestur til úrbóta og í október 2014 var þeim tilkynnt að sauðfé yrði tekið af þeim. Því var slátrað í nóvember sama ár en um var að ræða rúmlega 300 kindur.

Bændurnir kröfðust 12,5 milljóna króna í skaðabætur og sögðu að Matvælastofnun hefði gengið allt of hart fram í málinu.

Dómurinn taldi að fullt tilefni hefði verið til að fylgjast með búfjárhaldinu en heimildir til að aflífa dýr séu háðar því að hvorki stofnuninni né eigendum takist að finna viðeigandi stað eða aðbúnað fyrir dýrin.

Auk þess taldi dómur að Matvælastofnun hefði verið búin að taka ákvörðun um slátrun áður en vörslusvipting gripanna fór fram. Framgangan standist ekki heimildir Matvælastofnunar um meðferð dýra.

Dómarinn féllst ekki á 12,5 milljóna króna bótakröfu en Matvælastofnun var gert að greiða þeim samtals þrjár milljónir í miskabætur. Ekki er ljóst hvort Matvælastofnun áfrýjar dómnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert